Ryðelri er af bjarkarætt og náskylt birki. Þessar ættkvíslir er líkar í útliti en þegar þær eru skoðaðar nánar grasafræðilega, sést að ýmislegt er ólíkt. Eitt af því sem er ólíkt eru fræreklarnir. Á elri eru þeir trjákenndir líkt og könglar barrviða. Annað sem einkennir elri er að á rótum trjánna eru ryðbrúnir hnúðar með bakteríum (gerlum) sem vinna óbundið köfnunarefni (nitur, N2) úr andrúmsloftinu. Allar elritegundir hafa þessa hnúða á rótunum en þeir geta orðið allt að hnefa stórir. Samband þessara baktería eða gerla er ýmist nefnt sambýli, samlífi eða stoðbýli og er þá talað um sambýlisgerla í því sambandi. Elrinu er lífsnauðsynlegt að komast sem fyrst í snertingu við þessar bakteríur til þess að geta lifað áfram. Ungar plöntur geta lifað án þeirra ef þær vaxa í mjög frjóum jarðvegi eða fá tilbúinn áburð en plönturnar þrífast ekki vel né lifa lengi án þeirra. Elrið getur tengst bakteríunni strax á kímplöntustigi og er þá talað um að plantan sé smituð með rótarbakteríunni.
Jarðvegsbætandi sambýli
Bakteríutegundin sem lifir á rótum elrisins kallast á latínu Frankia alni. Bakteríurnar taka upp köfnunarefnið úr andrúmsloftinu og gera það aðgengilegt fyrir tréð. Í staðinn færir tréð bakteríunum sykrur sem það vinnur með ljóstillífun. Árangurinn af þessu gagnlega sambandi er sá að jarðvegurinn þar sem elrið vex verður frjósamari. Elrið er með öðrum orðum jarðvegsbætandi jurt líkt og lúpínan. Við bestu skilyrði þar sem elrið vex þétt, getur framleiðslan á köfnunarefninu verið um og yfir 300 kíló á hektara en það er mun meira en lúpínan getur framleitt. Þessi mikla áburðarframleiðsla gerir sumum elritegundum kleyft að vaxa upp í allt að 30 metra hæð á áratug við bestu skilyrði eða þrjá metra á ári að meðaltali. Þetta sambýli elris og Frankia bakteríunnar gerir elrinu jafnframt kleift að lifa í mjög blautum jarðvegi enda er elri oft helst að finna við ár, læki og í mýrum.
Samkvæmt nýjustu grasafræðilegum rannsóknum er nú talið að á jörðinni séu um 30 elritegundir en margar hafa verið settar saman sem deilitegundir. Þessar tegundir eru ýmist runnar eða tré og er útbreiðsla þeirra um norðanvert tempraða beltið, frá 23,5°N og norðri að heimskautsbaug.
Vannýtt tegund í íslenskri skógrækt
Almennt má segja að elri hafi lítið verið ræktað hér á landi og oft með litlum árangri. Ástæðurnar eru nokkrar, en alls ekki sú að elri þrífist ekki vel hérlendis. Í fyrsta lagi hefur elri ekki vaxið hér á landi síðan fyrir síðustu ísöld og hér finnast aðeins örfáar plöntur sem lifa í sambýli með Frankia bakteríunni. Hún finnst því aðeins í örlitlu magni í íslenskum jarðvegi. Í öðru lagi hafa ekki verið reynd rétt kvæmi og ekkert unnið í kynbótum á því erfðaefni sem er að finna hér á landi. Í þriðja lagi hefur oft ekki tekist að smita plöntunar með Frankia bakteríunni. Þetta virðist einkum hafa gengið illa þegar kemur að plöntum sem eru aldar upp í stórum og mjög tæknivæddum gróðrarstöðvum. Strax í sáningu byrja vandræðin því sáðmoldin sem notuð hefur verið nær eingöngu er svo kölluð barnamosamold (Sphagnum) sem er innflutt frá Finnlandi eða Eystrasaltslöndunum. Áður fyrr var þessi mold m.a. notuð í sáraumbúðir vegna þess að í henni er að finna efni sem drepa bakteríur og þar á meðal Frankía bakteríuna. Yfirleitt eru þessar plöntur ræktaðar innan um aðrar trjátegundir og allar tegundir fá sömu meðhöndlun. Þannig er úðað yfir allar plönturnar með sveppalyfjum til þess að drepa myglusveppi sem drepa smáplönturnar en sveppalyfið drepur Frankia bakteríuna. Einnig er vökvað yfir allar plöntunar með áburðarvatni en of mikill áburður getur valdið því að Frankía bakterían yfirgefur plöntuna.
Eins og áður sagði þá hafa framfarir í trjáerfðafræði leitt það af sér að margar tegundir elris hafa verið settar sem deilitegundir af einni tegund. Þetta á fyrst og fremst við um runnkenndu elritegundirnar sem hafa útbreiðslu nyrst á norðurhveli jarðar og hæst í fjöllum. Þær tegundir sem reyndar hafa verið hér á landi og þetta á við um eru grænelri, hríselri, fjallelri, sitkaelri og kjarrelri. Allar þessar deilitegundir eru margstofna runnar frá um 50 sm á hæð, við allra verstu skilyrði, og upp í um 12 metra háa runnar. Af þessum deilitegundum er sitkaelrið stórvaxnast og sú eina sem getur verið einstofna smátré en það er þó mjög sjaldgæft. Mælingar sýna að sitkaelri getur framleitt 25 kíló á hektara af hreinu köfnunarefni.
Þær elritegundir sem mynda hávaxin tré og tekist hefur að rækta með ágætum árangri hér á landi, eru gráelri og deilitegundir þess – blæelri og hæruelri en einnig rauðelri og ryðelri. Aðrar tegundir mynda oftar runna heldur en tré.
Mikill vöxtur fyrstu árin
Ryðelri er útbreitt eftir norðvesturströnd Ameríku, allt frá suðurhluta Kalíforníu nærri 34°N og allt syðausturhluta Alaska, við 60°N í Yakutat og við jökulsporð Malaspinajökuls. Tegundin finnst sjaldan meira en 200 kílómetra frá ströndinni og vex yfirleit neðan við 750 metra yfir sjávarmáli. Ryðelri er langalgengasta lauftréð á þessu svæði og víða það eina. Það er jafnframt langstórvaxnasta elritegundin. Ryðelri vex bæði í hreinum ryðelriskógum og blandskógum en þó mun meira í blandskógum með trjátegundum eins og degli, marþöll, risalífvið, stórþin, sitkagreni og alaskaösp.
Í Alaska þar sem vaxtarskilyrðin eru hvað verst verður ryðelri sjaldan hærra en 5 til 12 metrar og yfirleit 10 til 40 cm í þvermál. Við bestu skilyrði eins og í Oregon getur ryðelri orðið yfir 30 metra hátt og yfir 80 cm í þvermál. Vaxtarhraði ryðelris getur verið gríðarlegur því við bestu skilyrði getur fræplantan vaxið um einn meter eða meira á fyrsta ári. Tveggja til fimm ára plöntur geta vaxið um meira en þrjá metra á ári. Það má því segja að ryðelri hafi mikinn ungdómsvöxt. Við góð skilyrði ná trén því að verða 9 metra há á 5 árum, 16 metra við 10 ára aldur og 24 metra há, 20 árum eftir að fræið spíraði úti í skóginum. Eitt tré mældist 10 metra hátt og 16,3 cm í þvermál í bjósthæð 5 árum frá því að fræið spíraði. Þegar ungdómsstiginu lýkur hægir verulega á vextinum. Eins og á við um allar elri tegundir þá nær ryðelri ekki mjög háum aldri. Algengt er að trén byrji að drepast við 60 til 70 ára aldur og þau verða sjaldan eldri en 100 ára.
Ryðelri verður snemma kynþroska, þ.e. blómstrar og byrjar að þroska fræ. Þannig þekkist það að tré séu aðeins þriggja til fjögurra ára gömul þegar þau fara að bera fræ og yfirleitt eru öll trén orðin kynþroska 6 til 8 ára gömul. Til samanburðar blómstrar rauðelri yfirleitt ekki fyrr en trén eru 15 til 20 ára. Þessi staðreynd og hinn gríðarlega hraði vöxtur þess á unga aldri gerir það að verkum að tegundin tekur yfir röskuð svæði í heimkynnum sínum eins og eftir rjóðurfellingu í skógum og skógarelda. Ryðelri þroskar fræ árlega og oft mikið af því. Á þriggja til fimm ára fresti má reikna með miklu fræfalli.
Hjálpar öðrum tegundum
Í meira en 40 ár hafa verið stundaðar rannsóknir á ryðelriskógum, sérstaklega á samspili ryðelris og deglis. Rannsóknir á svepprótarsveppategundum sem lifa í sambýli við degli hafa sýnt fram á að yfir 1.000 tegundir lifa í sambýli við degli en aðeins hefur tekist að greina um 50 tegundir á allri jörðinni sem lifa í sambýli við elritegundir. Algengustu svepprótartegundir sem lifa í sambýli við elri eru líklega af ættkvíslinni Alnicola og allar líkur eru á því að a.m.k. ein þeirra sé nú þegar búin að nema land hér á landi. Þær svepprótartegundir sem lifa í sambýli við elri eru talsvert ólíkar öðrum sveppategundum og virðast vinna næringarefnin með talsvert ólíkum hætti.
Þessar sveppategundir virðast vera öflugri en aðrar í að vinna mikilvæg næringarefni úr berggrunninum. Alls er vitað um meira en 20 efni sem þessar svepprætur vinna fyrir vistkerfið sem þær lifa í. Í meira en 40 ár hafa verið gerðar tilraunir með að gróðursetja saman degli og ryðelri. Besta aðferðin virðist vera að gróðursetja deglið nokkuð gisið þremur til fjórum árum á undan ryðelrinu sem þá er gróðursett nokkuð þétt í hæfilegri fjarlægð frá deglinu. Þessar tilraunir hafa sýnt fram á talsvert meiri hæðarvöxt á deglinu en einnig meiri sverleika trjábolanna. Einnig bendir allt til þess að á bestu vaxtarstöðum muni verða hægt að fá nýtanlegt timbur úr ryðelrinu.
Auk þess að bæta næringaefnum inn í vistkerfið þá eru vísbendingar um fleira gott sem ryðelri gefur vistkerfinu. Til dæmis bendir allt til þess að það dragi verulega úr rotsvepp sem skemmir rætur deglis og fleiri tegunda. Ryðelri sem vex með sitkagreni virðist einnig draga verulega úr skemmdum af völdum barkarbjöllu í stitkagreni sem er alvarlegt vandamál víða í vestanverðri Norður-Ameríku. Barkarbjallan fer annars mun verr með hvítgrenið sem vex lengra inni í landi og lengra frá ströndinni þar sem ekki er að finna ryðelri.
Sífellt vinsælli smíðaviður
Ryðelri getur gefið af sér úrvals smíðavið og hafa vinsældir þess aukist á síðustu árum. Það er vinsælt í alla vega húsgagnasmíði, gólfefni, skápa og í rennismíði. Frá árinu 1950 hefur einn þekktasti rafmagnsgítarframleiðandi heims, Fender, notað elrivið í gítarkassann á fjórum gerðum af rafmagnsgítörum, þar á meðal Fender Stratocaster. Elriviðurinn er sagður gefa af sér þéttan og jafnan tón. Meðal gítarsnillinga sem notuðu og nota Fender Stratocaster eru Buddy Holly, George Harrison, Jimi Hendrix, Eric Clapton, Mark Knopfler og Björn Thoroddsen.
Frumstæðar aðferðir gefist best við ræktun elris
Ryðelri hefur mjög lítið verið reynt hér á landi og nánast alltaf með litlum eða engum árangri. Ástæðan fyrir lélegum árangri er eins og með aðrar elritegundir. Kvæmin sem reynd hafa verið henta ekki íslenskum aðstæðum og ekki hefur tekist að smita plöntunar með frankiabakteríunni.
Vorið 1975 hófst Skógræktarfélag Hafnarfjarðar handa við að koma sér upp græðireit í skógræktargirðingunni við Hvaleyrarvatn sem seinna varð vísir að gróðrarstöð. Í áranna rás stækkaði gróðrarstöðin vegna þess að félagsmenn og síðar bæjarbúar í Hafnarfirði vildu kaupa skógarplöntur í gróðrarstöðinni en auk þess var byrjað að rækta upp alla vega skrautrunna og annan garðagróður. Gróðrarstöðin Þöll ehf. er alfarið í eigu skógræktarfélagsins og er rekin sem dótturfélag þess. Frá því fyrir síðustu aldamót hafa ýmsar elritegundir verið aldar upp í gróðrarstöðinni með sífellt betri árangri. Hann byggist fyrst og fremst á því að safna fræinu helst hér á landi og notast við fremur frumstæðar aðferðir við uppeldi trjáplantanna.
Fyrst var sáð fyrir ryðelri vorið 2003 með fræi frá Wasingtonríki á vesturströnd Bandaríkjanna. Útkoman var nánast aldauði og einsýnt að um allt of suðlægt kvæmi var að ræða. Nokkur norðlægari kvæmi hafa verið reynd síðar með sama árangri. Í byrjun október árið 2007 voru félagar úr Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar á ferðinni um trjásafnið sem er ofan við Rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Mógilsá þegar þeir rákust á nokkur ryðelritré sem voru með frærekla. Mest af fræinu hafði fallið úr reklunum en með mikilli fyrirhöfn tókst að ná nokkrum reklum af trénu sem í var smáræði af fræi. Þessu fræi var síðan sáð vorið 2008 og spíruðu nokkur fræ. Sama sumar voru plönturnar pottaðar í tveggja lítra potta og geymdar yfir vetur í óupphituðu gróðurhúsi. Í ágúst byrjun árið 2010 voru þessar plöntur gróðursettar í stórt beð í Höfðaskógi. Þær tóku strax vel við sér og hafa vaxið mjög hratt.
Haustið 2015, fimm árum frá gróðursetningu og sjö árum frá sáningu, höfðu öll trén náð fjögurra metra hæð frá jörðu og hæsta tréð tæpum fimm metrum. Haustið áður, 2014, báru þessi tré smáræði af fræi sem spíraði ágætlega. Trén hafa borið fræ öll haust síðan – minnst eftir rigningasumarið 2018 en mjög mikið haustin 2017 og 2019. Ryðelritrén á Mógilsá eru vaxin upp af fræi sem safnað var nærri bænum Petersburg á Mitkofeyju í Suðaustur-Alaska haustið 1985. Bærinn Petersburg er rétt sunnan við 57°N.
Við Systrafoss á Kirkjubæjarklausti er skógarreitur þar sem er að finna hæsta tré landsins, sem er nærri 30 metra hátt sitkagreni. Í brekkunni rétt fyrir neðan það tré er smá lundur með nokkrum ryðelritrjám sem gróðursett voru þar sumarið 1991 af Sigvalda heitnum Ásgeirssyni og Aðalsteini Sigurgeirssyni, þegar þeir voru á leið á aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem það árið var á Hornafirði. Þarna er að finna líklega bestu vaxtarskilyrði fyrir ryðelri hér á landi enda hafa þessi tré vaxið sérlega vel. Þessi tré eru vaxin upp af sama fræinu og trén á Mógilsá.
Ólafur Sturla sem kenndur hefur verið við gróðrarstöð sína Nátthaga í Ölfusi og Pétur N. Ólason sem jafnan er kallaður Per og kenndur við gróðrarstöðina Mörk, sem hann stofnaði árið 1967 og rak til ársins 2000, fóru í fræsöfnunarferð til Alaska haustið 1994 og höfðu með sér m.a. fræ af ryðelri, sem þeir söfnuðu í bænum Juneau í suðaustur Alaska sem er rétt norðan við 58°N. Nokkur ágæt tré komu upp af þessu fræi en Per gróðursetti þrjú þeirra í trjásafnið í Meltungu í Kópavogi, rétt fyrir ofan gróðrarstöð sína. Ólafur í Nátthaga fjölgar hins vegar besta trénu með græðlingaræktun og hefur gefið þessu yrki af ryðelri nafnið Iðja.
Ryðelri víðar en talið var á Íslandi
Í október 2016 voru tveir félagar í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar staddir í Hallormsstaðarskógi í fræsöfnunarleiðangri. Þeir komu við á skrifstofu skógarvarðarins Þórs Þorfinnssonar sem benti þeim á tilraunareit við Buðlungavelli. Þar væri m.a. að finna blæeritré úr Alaskaferð Óla Vals Hanssonar og fleiri haustið 1985. Safnað var nokkru magni af fræi af þessum trjám og fræinu sáð vorið eftir. Í ágúst 2017 var greinarhöfundur að prikkla þessar plöntur í fjölpottabakka og potta í tveggja lítra potta en hafði rétt áður lokið við sams konar verk með ryðelri úr Meltungu í Kópavogi þegar Steinar Björgvinsson garðyrkju- og skógfræðingur, kom inn í gróðurhúsið og spurði hissa hvort ég væri enn með ryðelrið úr Meltungu þar sem þær plöntur höfðu verið svo fáar. Greinarhöfundur og Steinar sökktu sér því næst niður í að greina laufblöðin nákvæmlega og bera saman við bæði ryðelri og blæelri. Það var ekki um að villast: Plönturnar frá Buðlungavöllum voru í raun ryðelri. Á sama augnabliki og niðurstaða fékkst í málið þá gerðist það ótrúlega að Björn Sigurbjörnsson kenndur við gróðrarstöð sína Gróanda renndi í hlað en hann hafði aldrei áður komið í Gróðrarstöðina Þöll. Björn stígur út úr bílnum og hefur í hendi laufgaða trjágrein. Greinarhöfundur og Steinar sjá greinina og segja um leið hátt og skýrt að greinin sé af ryðelri. Björn horfði í forundran á okkur félagana og sagði að við hlytum að vera með skyggnigáfu.
Björn sagði síðan frá tilefni heimsóknar sinnar. Haustið 1987 eða 1988 hringdi Óli Valur í hann og sagði honum að fara í gróðurhúsið þar sem verið væri að ala upp blæelrið frá höfninni í Skagway. Þar skildi hann taka nokkrar plöntur og gróðursetja á Grásteinum. Björn sagði að þessi tré hefðu vaxið ótrúlega hratt og vel en hann hefði alltaf verið í vafa um að þetta væri blæelri. Þess vegna væri hann kominn til að fá úrskurð sér færari manna. Það var því farið að rýna í blaðjaðrana og hið sanna kom í ljós því þetta var ryðelri. Það er því ljóst að ryðelri er að finna víðar hér á landi en menn töldu lengi vel.
Þessi ótrúlegi árangur sem náðst hefur fyrir algera tilviljun með ræktun ryðelris hér á landi og nýjustu rannsóknir í Bandaríkjunum og Kanada, gefa vísbendingar um að ryðelri sé framtíðartrjátegund á Íslandi. Á síðustu árum hafa augu skógvísindamanna um allan heim beinst að blandskógum og gagnsemi þeirra. Allt bendir til að ryðelri passi fullkomlega í þá þróun. Reynslan af ræktun ryðelris hér á landi er hvorki mikil né löng. Hún nægir þó til að sannfæra greinarhöfund um að lítið mál verði að fá sífellt betra erfaðaefni þar sem svo stuttan tíma tekur að koma með nýja kynslóð sem verður betur aðlöguð að íslenskum aðstæðum en foreldranir.
Árni Þórólfsson.