Sögudagatal

Rómantískar væntingar Sigurðar Nordals til Heiðmerkur

Sigurður Nordal, prófessor og einn þekktasti fræðimaður Íslands, hafði miklar væntingar til Heiðmerkur þegar friðlandið var opnað. Væntingar sem voru í hæsta máta rómantískar. Sigurður gaf Heiðmörk nafn sitt, í útvarpsávarpi árið 1941. Hann hélt einnig ræðu þegar Heiðmörk var vígð formlega níu árum síðar.

Á þessum tíma var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík. Enda hafði gríðarleg fólksfjölgun orðið áratugina á undan. Fólk bjó oft þröngt í vondu húsnæði. Jafnvel þannig að tvær fjölskyldur byggju saman í einu herbergi.

Við slíkar aðstæður varð sérlega eftirsóknarvert að hafa aðgang að fallegu friðlandi eins og Heiðmörk. Af ýmsum ástæðum, eins og Sigurður Nordal kom inn á í ræðu sinni.

Sigurður vitnaði í norskan kunningja sinn, sem hafði ferðast um Suðurland og litist vel á það sem ræktarland. Norðmaðurinn vorkenndi hins vegar æskufólki landsins og velti fyrir sér hvernig það æri að því að trúlofast á slíku sléttlendi, „þar sem enginn skógur er og næturnar þar að auki svona bjartar, einmitt á vorin, þegar æskan er hneigðust til ásta.“ Eftir þessa upprifjun beindi Sigurður orðum sínum að fundarmönnum og spurði

„Getur það ekki hlýað ykkur, sem komið hingað til þess að setja niður trjáplöntur, dálítið um hjartarætur að hugsa til þess, að síðar meir eigi þessir reitir eftir að skýla ungum elskendum fyrir forvitnum augum og nærgöngulli athugun umhverfisins og leyfa þeim að finna friðland í langdeginu, sem ekki er kostur á í Reykjavík?“

Starfsmenn Skógræktarfélagsins segja að þessi von Sigurðar Nordal hafi sannarlega ræst. Ástarleikir séu vinsælir í Heiðmörk, ekki síður en önnur útivistarsport.

 

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.