Rauðavatnsskógur er einn af fjórum fyrstu ræktuðu skógunum á Íslandi. Skógurinn á sér merka sögu enda gegndi hann lykilhlutverki í upphafi skógræktar á Íslandi.
Svæðið, sem einnig er þekkt sem Rauðavatnsstöðin, er um 14 hektarar og vinsælt útivistarsvæði. Þar má finna ríflega aldargamlar fjallafurur, birki og rauðber, sem vaxa hvergi annars staðar á Suður- eða Vesturlandi. Auk þess sem röð um 250 hávaxinna sitkagrenitrjá skýlir svæðinu frá Suðurlandsveg.
Nýlega var birt tillaga að matsáætlun vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar.
Þar kemur fram að ef til vill verði hluti af Rauðavatnsskógi felldur vegna framkvæmdanna. Suðurlandsvegur liggur á kafla milli Rauðavatnsskógar og bensínstöðvar. Þá eru og bílastæði báðum megin við veginn. Í tillögunni, sem nú er til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun, segir að reynt verði að skerða skóginn „sem allra minnst“. Þá er jafnframt bent á að ekki verði „hægt að bæta við hugsanlegri þriðju akrein í hvora átt á vegkaflanum í framtíðinni nema skerða skóginn eða breyta aðkomu að bensínstöðinni.“
Fullt tilefni er til að rifja upp merka sögu Rauðavatnsstöðvarinnar.
Lystigarðurinn við Rauðavatn
Um aldamótin 1900 voru skógar hér á Íslandi fáir, litlir og illa farnir. Mikilvægi þess að vernda þær skógarleifar sem eftir voru, stöðva uppblástur og græða upp landið, varð sífellt fleirum ljóst. Árið 1901 var Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað og var markmið þess að girða upp skika við Rauðavatn og rækta þar upp trjáplöntur. Þetta var á svipuðum tíma og skógrækt hófst í Furulundinum á Þingvöllum, Grundarreit í Eyjarfirði og Mörkinni á Hallormsstað.
Helsti forsvarsmaður félagsins, danski skógfræðingurinn C. E. Flensborg, taldi að staðurinn væri tilvalinn fyrir lystigarð í framtíðinni. Þar voru gróðursett reynitré, lindifurur, fjallafurur og hvítgreni.Þá var lúpínu sáð á svæðinu í tilraunaskyni. Plönturnar hafði Flensborg tekið með sér frá Danmörku og drapst stærstur hluti þeirra. Öðrum var plantað í staðinn og komið upp græðireit til að rækta upp trjáplöntur fyrir íslenskar aðstæður. Þaðan eru komin sum af fyrstu trjánum sem íbúar í Reykjavík og víðar gróðursettu í görðum sínum.
„Merkustu fyrirbrigði í íslenskri trjárækt“
Talsverður gangur var í ræktunarstarfinu við Rauðavatn fyrstu árin en þrótturinn minnkaði er leið á annan áratug aldarinnar. Trén, einkum fjallafurur, héldu þó áfram að vaxa, þótt hægt væri enda aðstæður erfiðar. Meðal annars var girðingum illa haldið við og sótti sauðfé í trjáplönturnar. Árið 1929 skrifar S. Sigurðsson í Vísi að þrátt fyrir hirðuleysið, séu trén farin að spjara sig. Vissulega hafi þær átt erfitt uppdráttar í óræktar- og næringarsnauðu holtinu, og margar drepist, en síðustu ár hafi þau lagað sig að aðstæðum og byrjað að vaxa. „Þetta eru þau merkilegustu fyrirbrigði, er orðið hafa í íslenskri trjárækt“ Skrifar S. Sigurðsson.
Elstu fjallafururnar við Rauðavatn eru nú yfir 100 ára gamlar. Þær eru ekki háar – tveir til fjórir metrar að meðaltali – en hafa myndað skjól og skilyrði fyrir uppvöxt annarra trjáa.
Á þriðja áratugnum var þetta einn fárra áfangastaða í skipulögðum útivistarferðum borgarbúa. Skólabörn fóru þangað í vorferðir og Morgunblaðið skipulagði skemmtiferð fyrir almenning að skógræktargirðingunni við Rauðavatn, sumarið 1925. Farið var á vörubílum með bekkjum, þrjár ferðir yfir daginn.
Árangur áratuga starfs
Borgarbúar tóku einnig þátt í uppgræðslu svæðisins. Skólabörn gróðursettu trjáplöntur við Rauðavatnsstöðina og á sérstökum skógræktardögum Skógræktarfélags Reykjavíkur tóku hundruð manna þátt í gróðursetningu.
Á áratugunum frá lokum síðari heimsstyrjaldar stóð Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir gróðursetningu hátt í sextíu þúsund trjáplantna í Rauðavatnsskógi. Árangur þessa starfs er sýnilegur hverjum þeim sem á leið um Suðurlandsveg.
Um leið er vert að minna á að það er ekki svo langt síðan fólk var vantrúað á að það væri yfirleitt hægt að rækta fallegan og gróskumikinn skóg á Íslandi. Lengi vel var það eitt helsta markmið skógræktarmanna að sýna fram á hve miklum árangri mætti ná með uppgræðslu lands og ræktun skóga. Rauðavatnsskógur og saga hans ber þessu starfi fagurt vitni.