Skógarfróðleikur

Ösp — góður en vanmetinn smíðaviður

Alaskaösp er orðin algeng trjátegund á Íslandi. Hún vex hratt, er oftast beinvaxin og því víða vinsæl. Hæstu alaskaaspir á Íslandi nálgast nú þrjátíu metra hæð. Tegundin hentar bæði í skjólbelti og nytjaskógrækt, ef landið er frjósamt og sæmilega sólríkt. Vegna þess hve hratt ösp vex, bindur hún mikið kolefni — vel yfir 20 tonn af kolefni á hektara árlega, þegar best lætur. Til samanburðar binda margar barrtegundir um 7-11 tonn. Birki bindur um 3,5 tonn af kolefni á hektara á ári.

Alaskaöspin hafði lengi það orð á sér hér á landi að þótt hún væri öflug, hávaxin og skjótsprottin, þá væri viður hennar heldur ómerkilegur. Annað hefur nú komið í ljós. Viður íslenskrar alaskaapsarinnar hefur komið vel út í styrkleikaprófunum og er ágætis smíðaviður. 

Mynd: Ari Þorleifsson.
Mynd: Ari Þorleifsson.
Ösp er hægt að fjölga á einfaldan og ódýran hátt með græðlingum eins og þeim sem hér sjást. Mikilvægt er að velja af gaumgæfni það tré sem fjölgað er, því það þarf að hafa eftirsóknarverða eiginleika.

Í Skandinavíu hefur ösp verið notuð innan- og utandyra í aldir og reynst vel. Ösp er gjarna notuð í sánu vegna þess að hún leiðir hita illa. Ösp hentar líka vel í mataráhöld, segir Sigríður Óladóttir, húsgagnasmíðameistari og kennari við Tækniskólann. „Hún er hlutlaus og mjög þægileg í mataráhöld — á ekki að gefa frá sér lykt eða efni.“ Viðurinn henti líka vel til að tálga, til dæmis smjörhnífa, þar sem hann sé svo mjúkur. Í Tækniskólanum er verið að gera setur í stóla úr ösp. Sigríður segir að öspin sé auðveld í vinnslu, brotni lítið eða kvarnist, enda ekki jafn hörð og harðviður. Svo geti hún verið mjög skrautleg og falleg, með viðaræðar og vígindi, en það er mynstur í viðnum.

Mörg dæmi eru um fallega nýtingu á íslenskri ösp. Má þar nefna asparhúsið í Vallanesi. Húsið var byggt árið 2016, að mestu leyti úr ösp sem gróðursett var á sama stað, 30 árum áður. Þá hefur ösp úr Heiðmörk meðal annars verið notuð í sánu og innréttingu á baðherbergi.

Í Heiðmörk er ekki mikið af alaskaösp en verið að gróðusetja meira, segir Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk. Ösp þarf nokkuð frjósaman jarðveg og er meðal annars gróðursett í mela þar sem lúpína hefur gróðið í nokkurn tíma. „Ef hún er sæmilega stór, nær öspin að komast upp úr lúpínunni. Þetta er hraðvaxta tegund.“ Segir Sævar. Þá eru fallegir eldri asparreitir til dæmis á bökkum Hólmsár og Bugðu og í kringum Elliðavatnsbæinn.

Asparhúsið í Vallarnesi er að mestu byggt úr ösp. Pallurinn umhverfis húsið og gólfið er úr lerki. Mynd: Vallanes.
Inni í asparhúsinu í Vallanesi. Veggir og húsgögn eru úr ösp. Mynd: Vallanes.
Asparborð í þurrkun í Heiðmörk. Mynd: Sævar Hreiðarsson.
Fallegt mynstur í borðviðnum sem sagaður hefur verið úr ösp í Smiðjunni í Heiðmörk. Mynd: Margrét Valdimarsdóttir.
Baðinnrétting úr ösp úr Heiðmörk. Mynd: Ari Þorleifsson
Skál sem Andrés Hafberg gerði úr ösp úr Heiðmörk.

1 thoughts on “Ösp — góður en vanmetinn smíðaviður

Comments are closed.