Fréttir

Oslóartréð og Þórshafnartréð felld í Heiðmörk

Oslóartréð og Þórshafnartréð voru felld í Heiðmörk á laugardag. Oslóartréð er 14 metra hátt sitkagrenitré sem er um 70 ára gamalt.

 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi tréð sjálfur, með dyggri aðstoð Sævars Hreiðarssonar, skógarvarðar í Heijðmörk. Tréð sem varð fyrir valinu stóð í landnemaspildu Norska félagsins, sem er sérlega viðeigandi.  Oslóarborg hefur gefið Reykvíkingum jólatré allt frá árinu 1951, til marks um vináttu borganna. Lengst af var tréð flutt sjóleiðina frá Noregi en hin síðari ár hefur Oslóartréð verið sótt í Heiðmörk. Ljósin á Oslóartrénu á Austurvelli verða tendruð fyrsta sunnudag í aðventu, 28. nóvember. Í ár verður engin athöfn á Austurvelli því samhliða vegna aðstæðna í samfélaginu.

 

Sú hefð hefur myndast að Reykjavíkurborg sendi Þórshöfn í Færeyjum jólatré úr Heiðmörk, sem þakklætisvott fyrir vináttu Færeyinga í garð Íslendinga. Skipafélagið Eimskip sér um flutning á trénu til Þórshafnar í Færeyjum. Ljósin á trénu verða tendruð á Tinghúsvelli 27. nóvember.

 

Fjallað var um Oslóartréð meðal annars á Vísi, Mbl.is. og í kvöldfréttum RÚV, þar sem rætt var við Sævar.

Sævar hjálpar borgarstjóra að rifja upp handtökin við fellingu stórra grenitrjáa með keðjusög. Mynd: Róbert Reynisson/Reykjavíkurborg.

Hressing í skóginum. Mynd: Róbert Reynisson/Reykjavíkurborg.

Borgarstjóri ásamt Aud Lise Nor­heim, sendi­herra Noregs á Ís­landi, og Auði Kjartansdóttur frkvstj. Skógræktarfélags Reykjavíkur. Mynd: Róbert Reynisson/Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk, við nýfellt tréð. Mynd: Róbert Reynisson/Reykjavíkurborg.