Fréttir

Oslóartréð og Þórhafnartréð felld í Heiðmörk

Oslóartréð – jólatré Reykvíkinga sem stendur á Austurvelli – var fellt í Heiðmörk laugardaginn 14. nóvember. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi tréð undir handleiðslu Sævars Hreiðarssonar, starfsmanns Skógræktarfélags Reykjavíkur. Tréð var 12,40 metra hátt sitkagreni sem líklega hefur verið gróðursett á tíu ára afmæli Heiðmerkur, árið 1960.

Oslóarborg hefur áratugum sama gefið Reykvíkingum jólatré til marks um vináttu borganna. Lengst af var tréð flutt sjóleiðina frá Noregi. Hin síðari ár hefur hins vegar verið höggvið tré í Heiðmörk. Enda eru tignarleg tré ekki jafn sjaldséð sjón hér á landi og áður var.

Kveikt verður á jólaljósum á Oslóartrénu á Austurvelli 29. nóvember.

Í vikunni var Þórshafnartréð einnig fellt. Sú hefð hefur myndast að Reykjavíkurborg sendi Þórshöfn í Færeyjum jólatré úr Heiðmörk, sem þakklætisvott fyrir vináttu Færeyinga í garð Íslendinga. Fyrsta Þórshafnartréð var sótt í Heiðmörk árið 2013. Þórshafnartréð þetta árið er 11 metra hátt sitkagreni. Tréð er nú á leið til Færeyja með Eimskip og verður það reist á Tinghúsvöllum í Þórshöfn. Kveikt verður á jólaljósunum á trénu 28. nóvember.

Fjallað var um Oslóartréð meðal annars á mbl.is, Vísi og rúv.is. Þá var Stundin okkar á staðnum.

Góður hlífðarbúnaður er nauðsynlegur þegar unnið er með keðjusög. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Sævar fellir Þórshafnartréð – 11 metra hátt sitkagreni. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Þórshafnartréð er nú komið um borð í skip Eimskipa, á leið til Færeyja. Mynd: Auður Kjartansdóttir.