Oslóartréð í ár er 11,5 metra hátt sitkagreni úr Heiðmörk. Tréð óx upp í spildu Skógræktarfélagsins. Þar hefur það þrifist vel og vaxið tiltölulega hratt en það var gróðursett fyrir um 42 árum.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, felldi tréð nú á laugardag, 19. nóvember, með aðstoð Sævars Hreiðarssonar, skógarvarðar Heiðmerkur. Oslóartréð verður sett upp á Austurvelli og ljósin tendruð næstkomandi sunnudag, 27. nóvember.
Jólatréð sem sett verður upp á Tinghúsvöllum í Þórshöfn í Færeyjum, hefur einnig verið fellt. Jólatréð er 11 metra hátt sitkagreni úr Heiðmörk og er það nú á leið til Þórshafnar í skipi Eimskipa. Ljósin verða tendruð á trénu laugardaginn 26. nóvember. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sent jólatré úr Heiðmörk til Þórshafnar, sem þakklætisvott fyrir vináttu Færeyinga í garð Íslendinga.