Á döfinni

Opnað fyrir umsóknir á handverksmarkað jólin 2020

Jólamarkaðurinn við Elliðavatnsbæ í Heiðmörk er haldin allar aðventuhelgar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur verið mikil og ljúf jólastemming á markaðnum á aðventunni og ánægjulegt að sjá að heimsókn á jólamarkaðinn hefur fest sig í sessi sem aðventuhefð hjá mörgum.

Hugsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur með jólamarkaðnum er að stuðla að ævintýralegri upplifun í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk kemur og nýtur sín í skóginum, velur jólatré og getur fundið einstakar gjafir fyrir hátíðarnar. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré af ýmsum gerðum. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett. Félagið hefur einnig haldið utan um handverksmarkað þar sem sérstök áhersla er lögð á einstakt handverk, unnið úr náttúrlegum efnum, innlenda matargerð og snyrtivörur.

Covid-19

Vegna covid-19 verður jólamarkaðurinn með öðru sniði til þess að gæta sem best að öryggi allra. Til að mynda verður kaffihúsið nú utandyra og meiri áhersla á upplifun utandyra. Rjóðrið, þar sem verið hefur sérstök dagskrá fyrir börn, verður gert að notalegum dvalarstað þar sem varðeldur mun loga allan opnunartíma markaðarins og jólasveinar verða á sveimi. 

HANDVERKSMARKAÐUR

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur nú opnað fyrir umsóknir á handverksmarkaðinn. Til þess að ná að uppfylla fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk, verður aðeins boðið upp á sex sölupláss í efri sal gamla bæjarins við Elliðavatn. Ásamt því að verða tveir til þrír jólakofar á plani. Einstefna verður í gegnum salinn og mikilvægt er að þeir sem fá úthlutað pláss taki virkan þátt í að passa upp á fjölda- og fjarlægðartakmarkanir og sóttvarnir. Rétt er að taka fram að handverksmarkaðurinn verður aðeins haldinn ef samfélagslegar aðstæður leyfa.  

Jólamarkaðurinn verður opinn frá 12:00 til 17:00 alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni.

Fyrsta aðventuhelgin

28.-29. nóvember

Önnur aðventuhelgin

5.-6. desember

Þriðja aðventuhelgin

12.-13. desember

Fjórða aðventuhelgin

19.-20.desember

Verð fyrir söluborð eða jólakofa: 12.000 kr. helgin eða 20.000 kr. fyrir tvær helgar.

Mælt er með að sölufólk mæti a.m.k. 30 mínútum fyrir opnunar tíma til að gera básana klára. Uppsetning bása er annað hvort á föstudeginum fyrir hverja helgi eða samdægurs. Starfsmenn jólamarkaðarins mæta til vinnu klukkan 11:00.

Aðstaða fyrir sölufólk:

Jólahús á plani verða tvö til þrjú og í hverjum er pláss fyrir einn söluaðila og mikilvægt að söluaðilar passi fjöldatakmarkanir inn í húsin. Húsin mynda lítið torg á planinu. Í hverjum kofa verður að minnsta kosti einn gashitari.

Í efri sal Elliðavatnsbæjarins verða sex söluborð, hvert um það bil 150×80 sm, stólar fyrir söluaðila og aðgangur að rafmangi er á staðnum. Húsið er upphitað en það getur verið svalt þar sem hurðin er mikið til opin inn í salinn. Salir og útisvæði verða skreytt og jólaljósalýst.

UMSÓKNIR

Allar umsóknir skal senda á [email protected]. Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir heldur utan um markaðinn og mun svara öllum fyrirspurnum fyrir 15. nóvember. Umsækjendur skulu taka fram nafn, kennitölu, símanúmer og hvaða vörur viðkomandi vill selja. Mikilvægt er að senda myndir og texta um vöru og uppruna. Vegna mikillar ásóknar er valið úr umsóknum inn á markaðinn og því ekki allir sem komast að.

MARKAÐSSETNING OG KYNNING

Skógræktarfélagið sér um kynningu á jólamarkaðinum með ýmsum hætti, bæði með auglýsingum og umfjöllunum á sem fjölbreyttustum miðlum. Eins er vert að minnast á samfélagsmiðlana, Facebooksíðu jólamarkaðarins og Skógræktarfélagsins þar sem söluaðilar geta deilt áfram efni og auglýsinum. Auk þess er félagið með instagram síðu.