Fréttir

Offriðun

Samtal í eldhúsinu á Elliðavatni

 Oft er gestkvæmt á Elliðavatni og  geta skapast  fjörugar umræður við eldhúsborðið.  Fyrir skömmu kom  til dæmis Friðunarmaðurinn  í heimsókn og ræddi sín hjartans mál -og að sjálfsögðu svaraði Skógarmaðurinn út frá sínu  sjónarhorni.  

 

Friðunarmaður:           Þið skógræktarmenn farið offari og viljið kaffæra allt í trjám! Ekkert útsýni, bara dimmur

skógur út um allt. Það hlýtur að styttast í að maður sjái ekki Elliðavatnið lengur!

Skógarmaður:             Þetta er nú ofsagt, við viðurkennum staði  þar sem óþarfi er að rækta tré,þó vissulega sé  það oft freistandi!  Við erum til dæmis alveg sáttir við að rækta ekki tré í þjóðgörðunum og þeir ná nú ekki yfir svo lítil svæði núorðið.

Friðunarmaður:           Þakka skyldi ykkur!  Að einhver staður á landinu fái að vera í friði fyrir ræktunaráráttunni.

Skógarmaður:             Mig langar að spyrja þig ágæti Friðunarmaður: hvar eru mörkin í friðuninni?  Sjáðu til dæmis þarna hinumegin við vatnið þar er Norðlingaholtið,nýja byggðin  í Norðlingaholtinu .  Arkitektúrinn er nú eins og hann er og smekkurinn misjafn, látum það vera, en sérðu eftir  náttúrunni (og kofunum) sem fóru  undir byggðina þar?

Friðunarmaður:           Já ég verð að segja það!  Norðlingaholtið hefði átt að vera ósnortið, það hefði átt að byggja annarsstaðar!

Skógarmaður:              Þetta eru nú öfgar hjá þér….

Friðunarmaður:           Það eruð þið skógarmenn sem eruð ofstækismenn og trjáorþódoksar!!

Skógarmaður:             Það liggur nú við að maður verði kjaftstopp…. en þó vil ég spyrja þig um Heiðmörkina . Nú fögnum við 60 ára afmæli Heiðmerkur á þessu ári, eins og þú veist, hér var opnað árið 1950 og við höfum heldur betur gróðursett tré hérna , hátt í 7 milljón tré og mestallt aðflutt, komið  frá útlöndum, hvað segir  um það Friðunarmaður? Hvernig heldurðu að hér væri umhorfs ef landið hefði bara verið friðað og ekkert gróðursett?

Friðunarmaður:           (Eftir nokkra umhugsun) Ég verð nú að viðurkenna að  ég kann vel við Heiðmörkina eins og  hún er, en  ætli þetta væri ekki enn betra ef hér hefði ekkert  verið gróðursett!

Skógarmaður:             Hættu nú alveg!  Hér væri ekki nema víði- og birkikjarr á stangli.  Enginn skógur, ekkert skjól sem talandi væri um, engin jólatré, enginn eldiviður, ekkert kurl, enginn borðviður. Og kannski það sem mestu skiptir : engin fjölbreytni, bara sama gamla ófæra birkikræðan.

Friðunarmaður:           Íslenska birkið  og íslenski víðirinn stendur alltaf fyrir sínu og það eru þær tegundir  sem tilheyra landslaginu og  hafa vaxið hér frá landnámi, og hananú!  Stór eða lítil tré, það skiptir ekki máli. Þetta eru ekki annað en minnimáttarkennd  í ykkur trjáorþódoksum að vilja gera hér allt eins og í útlöndum.  Þið verðið að hafa trú á því sem íslenskt er og skapar okkur sérstöðu! Og vel á minnst túristar sem koma hingað til lands hvað haldið þið að þeir vilji skoða? Skóg með útlendum trjátegundum? Ha, ha,ha. Það síðasta sem þeir vilja sjá, þeir hafa nóg með sína hörmulegu lokuðu skóga heima hjá sér!

Skógarmaður:              Hvað hefurðu fyrir þér í því að útlendingar vilji ekki skóg? Þvert á móti held ég að þeir vilji koma í skóg, já kannski einmitt af því hann minnir á heimalandið, þegar heimþráin gerir vart við sig eða óöryggið  og kannski víðáttufælni grípur ferðamanninn er einmitt gott að geta tjaldað og andað rólega í íslenskum skógi.

Friðunarmaður:           Jæja,  mikil er trú þín Skógarmaður, en sem betur fer ert þú ekki einræðisherra hér á landi því þá væri landið ekki lengi að lokast í dimmum skógi svo hvergi sæi til fjalla eða út á vötnin, hvílík hörmung! Það skylli þá á landflótti því það er í eðli okkar Íslendinga að vilja sjá umhverfið allt í kring, víðáttan er  í genunum!

Skógarmaður:             Við skulum sleppa genunum í bili minn ágæti Friðunarmaður. Þú getur andað rólega því pólitíkin hér hefur engan skilning á mikilvægi skógarins, því miður segi ég, hér rækta menn fyrst og fremst skóg til þess að ,,halda landinu í byggð“ eða með öðrum orðum viðhalda gamla landbúnaðinum. Mitt er að vera órólegur og fá fram breytingar, þú hefur hér í dag talað máli íhaldsmanna sem þekja svo gott sem allt pólitíska litrófið og stóran hluta þjóðarinnar og það okkar verkefni að auka skilning á mikilvægi skógarins og þörfinni fyrir breytingar. Ættu undanfarin ár ekki að hafa kennt okkur það að hér þarf að breyta?

Friðunarmaður:           Æ við skulum sleppa pólitíkinni, áttu ekki meira kaffi?

Skógarmaður:             Jú gjörðu svo vel. Það er alltaf gaman að fá þig í heimsókn. En ég ætla að nefna eitt dæmi í viðbót, áður en þú ferð, um offriðunaráttu ykkar friðunarmanna, við töluðum áðan um Norðlingaholtið og Heiðmörkina og þriðja dæmið er Skeiðarársandur. Nú hefur stærsti  þjóðgarður í Evrópu verið samþykktur, ekki satt? Allur Vatnajökull og gríðarstórt landsvæði í kringum hann. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli er reyndar margra áratuga gamall, þar er bannað að rækta hinar skelfilegu útlendu trjátegundir sem þið óttist svo mjög.  Gott og vel. En hvað er að gerast í framhaldinu þegar beit leggst af á Skeiðarársandi? Birkið og víðirinn breiðist þar eðlilega út, streymir niður á sandinn ofan af heiðinni má segja, og spurningin vaknar hvort þar megi ekki gróðursetja hraðvaxnari tré. Hvað segið þið friðunarmenn þá? Engin útlend tré utan við þjóðgarðinn! Við friðum stórt land í kringum þjóðgarðinn, stórar ,,landslagsheildir“ og helst allt landslagið! Þú verður að viðurkenna  Friðunarmaður, og nú vona ég að þér svelgist ekki á kaffinu, að þarna gangið þið of langt! Þarna er friðunaráráttan komin út í tóma vitleysu!

Friðunarmaður:           Ég hef nú ekki kynnt mér þetta Skeiðársandsdæmi sérstaklega og hef nú grun um að þú ýkir all hressilega, en nú þarf ég að fara,  takk fyrir mig…ég held svei mér þá að spjall okkar hér í eldhúsinu geti verið efni í heila ráðstefnu!