Nýtt, hnitmerkt kort hefur verið útbúið af útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum, með nákvæmum lýsingum á stígakerfi svæðisins. Kortið er aðgengilegt hér og hægt að hlaða því niður hér. Þá er búið að setja nýja kortið á skiltið við bílastæðið neðan Þverfellshorns.
Esjuhlíðar eru eitt vinsælasta og stærsta útivistarsvæði landsins. Stígakerfi svæðisins hefur verið stækkað mikið undanfarin ár og nýtur vaxandi vinsælda meðal fjölbreytts hóps gesta. Gönguleiðir, hjólaleiðir og aðkomuleiðir í Esjuhlíðum eru nú samtals um 23 kílómetrar á lengd.
103.495 á Esjuna árið 2021
Vinsælasta leiðin er þó leiðin beint upp að Steini eða Þverfellshorni. Samkvæmt teljara sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur sett upp við bílastæðið neðan Þverfellshorns, gengu alls 103.495 manns á Esjuna þaðan, á árinu 2021. Þetta samsvarar því að ríflega 280 gangi á Esjuna á degi hverjum. Flestir voru Esjufarar laugardaginn 19. júní – á Kvenréttindadaginn. Þá gengu 1.049 á Esjuna neðan Þverfellshorns. Á myndinni hér að neðan sést hvernig fjöldi fólks sem fór hjá teljaranum skiptist milli mánaða.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með útivistarsvæðunum í Esjuhlíðum frá aldamótum. Þar er unnið að skógrækt og uppbyggingu útivistarsvæða, meðal annars með styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og styrkvegasjóði.
Uppbyggingarstarfið og endurbætur á þeim innviðum sem fyrir voru, hafa verið gerðar í góðu samstarfi við verkfræðistofuna EFLU. Á heimasíðu sinni hefur EFLA birt umfjöllun um uppbygginguna í Esjuhlíðum. Þar má meðal annars sjá hitakort yfir notkun stígakerfisins, sem sýnir að umferð er þegar farin að dreifast nokkuð vel um Esjuhlíðar. Þá eru á vefnum afar skemmtilegar myndir af stígunum fyrir og eftir endurbætur.
Fylgjast má með fréttum af uppbyggingarstarfi í Esjuhlíðum á heidmork.is, undir Esjufréttir.