Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Heiðmörk ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu er nú aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar. Markmið með gerð deiliskipulagsins eru margþætt og eiga að tryggja samræmingu landnotkunar innan svæðisins til að forðast hagsmunaárekstra milli núverandi og framtíðar landnotkunar á svæðinu.
Helstu markmið eru:
- Að afmarka og skilgreina svæði eftir nýtingu þeirra og/eða verndun þ.e. vatnsverndarsvæði, útivistarsvæði og skógræktarsvæði.
- Að skapa fjölbreytt og aðgengilegt ústivistarsvæði fyrir alla aldurshópa.
- Að ákvarða og skilgreina legu helstu vegtenginga og göngu-, hjóla- og reiðleiða um svæðið. Styrkja tengingu byggðar við útivistarsvæði.
- Að styrkja samspil og tengingu Heiðmerkur við aðliggjandi útivistarsvæði.
- Að tengja nærumhverfi Elliðavatnsbæjarins annarri starfsemi á svæðinuog styrkja Elliðavatnsbæ sem þjónustu- og fræðslumiðstöð fyrir Heiðmörk.
Tillagan liggur frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15, frá 11. ágúst 2010 til og með 22. september 2010. Einnig má sjá tillöguna á heimasíðu sviðsins, www.skipbygg.is. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum skal skila skriflega eða á netfangið [email protected], til skipulags- og byggingarsviðs eigi síðar en 22. september 2010.Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti. Þeir sem eigi gera athugasemdir innan tilskilins frests, teljast samþykkja tillöguna.
- Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Reykjavíkurborgar.