Fréttir

Nýr viðkomustaður í Asparlundi

Nemendur á fyrsta ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands hafa útbúið nýjan viðkomustað í Heiðmörk, nærri Elliðavatnsbænum. 

Nemendurnir dvöldu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk í fjóra daga í nóvember. Dvölin var hluti af námskeiði fyrsta árs nema, sem ber yfirskriftina „Ferli skapandi hugsunar“. Tilgangurinn með dvölinni er að þau kynnist umhverfinu, skóglendinu og viðarvinnslu. Og rannsaki um leið skógarmenningu, upplifanir í skógi og efnin sem þar finnast.

Afrakstur dvalarinnar er Asparlundur – viðkomustaður við Rjóðrið, steinsnar hjá Elliðavatnsbænum. Þar er bekkur sem gerður var af nemendunum og nokkur skilti með æfingum, eins og sjá má hér að neðan. Nemendurnir gerðu einnig myndband – Finndu núið – sem hægt er að horfa á hér.

Þetta er í annað sinn sem hópur nemenda við LHÍ koma til dvalar í Heiðmörk í tengslum við námskeiðið “Ferli skapandi hugsunar”. Skógræktarfélagið á í góðu samstarfi við fjölmargar menntastofnarnir og vill félagið með  því stuðla að vitund og fræðslu um þá auðlind sem býr í skógurinn.

Gestir Heiðmerkur njóta núsins í Asparlundi, á laugardaginn var.