Fréttir

Nýr göngustígur og stórbættur Hlíðahringur í Heiðmörk

Nýr, ríflega tveggja kílómetra göngustígur er að verða til í Garðabæjarhluta Heiðmerkur. Stígurinn liggur frá útilífsmiðstöð skáta, Vífilsbúð, sem er við Grunnuvötn, að Hjöllum. Við útilífsmiðstöðina tengist nýi stígurinn svo beint við stíg sem var lagður frá Vífilsstaðavatni.

Með nýja stígnum verður Hlíðahringurinn miklu betri og er hann nú að mestu á góðum stígum. Aðeins á eftir að byggja upp stíginn frá bílastæðinu við Búrfellsgjá að Hjallabrúm, sem merktur er með rauðum punkti á kortinu.

Vífilsbúð var vígð fyrir tveimur árum — í maí 2022. Vífilsbúð er skátaskáli og útilífsmiðstöð Garðabæjar. Til stendur að skólar geti nýtt hana á virkum dögum enda aðstaðan og umhverfið hentug fyrir útikennslu og kennslu í náttúrufræði. Þá kemur til greina að þarna verði viðburðir í tengslum við útivist almennings, í samstarfi við Garðabæ.

Vífilsbúð er nærri Grunnuvötnum, fyrir ofan Vífilsstaðahlíð sem varð hluti af Heiðmörk árið 1957. Landnemahópar hafa verið að störfum á svæðinu í áratugi. Gróður hefur tekið miklum framförum þótt enn sé ekki samfelld gróðurþekja á öllu svæðinu. Mikið er um sjálfsáð birki auk þess sem talsvert hefur verið gróðursett af stafafuru. Aðgengi að svæðinu var nokkuð erfitt lengi vel en undanfarið hefur mikið verið gert til að bæta það. Meðal annars hafa verið lagðir göngustígar sem eru hluti af Sólarhring (gönguleið merkt gul) og Hlíðahring (fjólublá gönguleið). Mikið er unnið við nýgróðursetningaar á þessu svæði þessi misserin.

Hlíðahringurinn er litaður fjólublár á þessari mynd.