Fréttir

Ný tækifæri með nýjum traktor, kubbara og sláttuvél

Margir möguleikar felast í nýjum traktor sem Skógræktarfélag Reykjavíkur keypti nýlega. Hægt er að nota traktorinn víða í skóglendinu vegna þess hve nettur hann er. Kubbari, sláttuvél og ámoksturstæki sem hægt er að setja á traktorinn, fela auk þess í sér mörg tækifæri.

 

Traktorinn er af gerðinni Solis 26 og var keyptur með veglegum 800 þúsund króna styrk frá fyrirtækinu Vallarbraut sem flytur tækin inn. Traktorinn er af stærð sem hentar til vinnu inni í Smiðjunni þar sem viðarvinnsla félagsins er, ekki síður en úti á plani og inni í skógi. Til dæmis er hægt að aka traktornum eftir öllum Ríkishringnum, sem gerir endurbætur og viðhald á stígakerfinu mun auðveldara.

 

Traktornum fylgja margskonar viðbætur. Hægt er að setja á hann ámoksturstæki til að nota við göngustígagerð. Hægt er að festa sláttuvél aftan í traktorinn og verða gerðar tilraunir með að klippa lúpínu meðfram göngustígum til að þeir verði opnari. Þá voru keyptir gaflar framan á traktorinn til að t.d. taka upp og flytja viðarbúr og auðvelda þannig eldiviðarvinnslu.

Nýji traktorinn er nettur og hentar því vel til vinnu í skóglendinu og á stígum.

Nýji traktorinn auðveldar til muna alla vinnu við stígagerð.

Kubbari til að kubba boli og greinar fylgir traktornum. Hægt er að nota til að kubba niður eldivið eða mala niður greinar. Viðbúið er að kubbarinn verði talsvert notaður úti í skógi þegar verið er að grisja. Hægt verður að kubba niður boli og stærri greinar og flytja í Smiðjuna með einfaldari hætti. En einnig verður hægt að flýta niðurbroti á efni sem eftir verður. Þegar grisjað er, fellur til mikið efni sem æskilegt er að brotni niður í skóginum. Þetta styrkir jarðveginn og sér þeim trjám sem eftir eru fyrir næringu. Mikið þurrt efni getur hins vegar aukið eldhættu. Því er gott að flýta fyrir niðurbroti og rotnun með því að brytja stærstu greinarnar niður.

 

Traktorinn var notaður við ýmis verkefni síðasta sumar. Meðal annars við stígagerð og við gerð  gönguskíðabrauta í gegnum skóglendi.