Fréttir

Nokkrar alhæfingar um skógrækt

Skógrækt er skipulagslaus
Tekist hefur að sá nokkrum ranghugmyndum hjá þjóðinni um skóga á íslandi. Af þeim stafi margvísleg ógn. Ein ranghugmyndin er að skógrækt sé skipulagslaus. Fullyrða má að engin landnýting á Íslandi er betur skipulögð en skógrækt. Jafnframt má fullyrða að þeir sem eru á móti skógrækt virðast eiga bágt með að viðurkenna það. Í staðinn grípa þeir til þess að segja að hún sé skipulagslaus.
Ógn við landslag og ásýnd 
Skógar breyta alls ekki landslaginu sjálfu. Það megna aðeins náttúrukraftar á við hafið, jöklana, eldgosin og vatnsföllin. Skógar breyta þó vissulega ásýnd landsins. Ásýnd Íslands án skóga er óheilbrigt ástand þar sem skógunum hefur verið eytt og jarðvegur fokið burt. Hvort landið er fallegra skógi vaxið eða skóglaust fer eftir smekk hvers og eins.
Skógar spilla útsýni
Þetta er bæði rétt og rangt. Í einstaka tilvikum vex upp skógur á svæðum þar sem hann hefur ekki verið í nokkrar aldir. Frá tilteknum stöðum getur hann skyggt á það sem annar sæist í fjarska, haf eða fjall. Lausnin er oftast að færa sig til um nokkra metra enda er Ísland því sem næst skóglaust land og yfirleitt ekki langt að fara til að sjá lengra til. Ekki má heldur gleyma því að skógurinn sjálfur er útsýni út af fyrir sig. Því er rétt að líta sér nær. Best er að fara inn í skóginn og njóta þess sem fyrir augu ber þar. Það er útsýni. Ekki þarf alltaf að sjá langar leiðir til njóta fegurðar.
Skógar eyða mófuglum
Þetta er alrangt. Fuglar hafa vængi og geta því fært sig úr stað. Í mörgum tilfellum styrkja skógar móflugastofna því í skógi geta þeir falið sig og unga sína fyrir ránfuglum. Þá er einnig mun meira fæðuframboð fyrir fugla í skógum en utan þeirra. Leiða má að því líkur að við eyðingu 95% búsvæða skógarfugla í landinu hafi stofnar þeirra hrunið og að með aukinni skógrækt styrkist stofnar þessara horfnu fluglastofna á ný. Beitarfriðun lands samhliða skógrækt kemur í veg fyrir eggjaát sauðkindarinnar og eykur því afkomu móflugastofna.
Skógar eyða berjalandinu
Þetta er rangt. Beitarfriðun lands sem ávallt fylgir skógrækt eykur berjauppsprettu. Venjulega er hluti hins friðaða lands tekinn til skógræktar og því þrífast krækiber ljómandi vel á mörgum skógræktarsvæðum. Bláber vaxa mjög gjarnan inni í skóglendi og með uppvaxandi skógi skapast einnig betri skilyrði fyrir skógarber eins og hrútaber. Til viðbótar vaxa nú sums staðar rifsber, hindber og sólber í íslenskum skógum.
Barrskógar hæfa ekki á Íslandi
Ísland er í barrskógabeltinu og einhvern tíma berast nýjar tegundir á nýjar slóðir. Hér þurfti manninn til að bera aðrar trjátegundir en birki og ilmreyni til landsins. Með tímanum má þó búast við að þær hefðu borist hvort sem væri þótt það hefði getað tekið árþúsundir. Fræ geta borist með hafís eða rekaviði. Fuglar geta líka borið þau yfir hafið. Eða menn. Við erum hluti af náttúrunni. Umræðan um eðlileg eða upprunaleg íslensk vistkerfi, hvað sé íslenskt og hvað ekki, er á hálum ís.
HG