Hópur nemenda Listaháskólans hefur undanfarnar tvær vikur verið með annan fótinn í Heiðmörk, í tengslum við áfanga, þar sem meðal annars er rætt um skóga og skógarmenningu.
Áfanginn fjallar um kúltúr og tíðaranda — meðal annars skóga, umhverfi, hamfarahlýnun, fólksflutninga og fleira. Nokkur áhersla er á skógarmenningu og skógarveruna sem til að mynda var fjallað um í predikun Benedikts Erlingssonar. Predikunin var birt hér á heidmork.is og víðar árið 2022.
Alls taka 26 nemendur þátt í áfanganum. Flestir leggja stund á hönnun og arkitektúr en einnig eru nokkrir nemendur úr öðrum fögum. Nemendur skila inn sýn sinni á skógarveruna, teikningu og sjónrænni kortlagningu á tíðaranda síðasta áratugar. Umsjónarmenn áfangans eru Guðmundur Oddur Magnússon og Daníel Björnsson.
Það er ánægjulegt hvað Heiðmörk veitir fólki oft innblástur og gagnast sem staður til að velta vöngum, fræðast og þróa hugmyndir. Skógaræktarfélag Reykjavíkur vill gjarna leggja sitt af mörkum til að þróa og kynna skógarmenningu á Íslandi. Þá tekur félagið reglulega á móti hópum námsfólks af öllum skólastigum, sem til dæmis vill fræðast um náttúruna, útivist, skógrækt, skógarmenningu, viðarvinnslu og umhverfismál.