Fréttir

Námskeið um græðlinga af víði og ösp

Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur námskeið um græðlinga af víði og ösp, laugardaginn 20. mars klukkan 11. Yfirskrift námskeiðsins er Klipping og stunga víði- og aspargræðlinga. Alaskaösp og víðir hafa þann eiginleika umfram aðrar trjátegundir hér á landi, að hægt er að koma á legg plöntum án þess að forrækta í bökkum eða pottum. Þess í stað er hægt að klippa græðlinga af trjám og stinga þeim beint í jörðu.

Námskeiðið samanstendur af stuttum fyrirlestri og verklegri kennslu. Í upphafi námskeiðs verður fjallað um trjátegundirnar alskaösp og víði, og helstu aðferðir sem notaðar eru við klippingu og beina stungu græðlinga. Að því loknu verður farið út, efniviður klipptur af standandi trjám og græðlingar svo útbúnir, allt undir leiðsögn. Því næst verður farið á svæði þar sem græðlingum verður stungið í jörðu.

Leiðbeinandi er Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir, skógfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá. Námskeiðið er haldið í húsnæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk og hefst í Smiðjunni, skammt frá Elliðavatnsbænum. Aðgangseyrir er 3.000 krónur en ókeypis fyrir félagsmenn.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected].