Fréttir

Minningarlundur um Útey á Íslandi

Fyrstu trén í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló í fyrrasumar voru gróðursett í gær við Norræna húsið.

Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Alls verða gróðursett átta reynitré í hring, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland).  Inni í hringnum verða bekkir og minningarsteinn, með áletrun. Í kringum hringinn verður 77 birkitrjám plantað – einu fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.

Það voru feðginin Siri Marie Seim Sønstelie og Erik H. Sønstelie, sem settu niður fyrstu tvö birkitrén, en þau eru komin til Íslands til að kynna bók sína „Ég er á lífi, pabbi“, en Siri Marie var í Útey þegar árásin var gerð. Minningarlundurinn verður svo formlega vígður á Menningarnótt í sumar.

Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands og Norræna hússins.SONY DSC