Fréttir

Minningargrein um Ingu Rósu Þórðardóttur

GJBT4II0

Kveðja frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur

Okkur setti öll hljóð þegar við fréttum af andláti Ingu Rósu. Við vissum um veikindi hennar og að þau væru svo alvarleg að ekki væri von um bata. Á stjórnarfundi bárust okkur fregnir af líðan hennar. Þær voru ekki uppörvandi. Við bjuggumst þó ekki við því að dauðastundin væri svona nálæg. Maðurinn með ljáinn kemur jafnan of snemma.

Inga Rósa sat í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur í fjórtán ár eða frá vordögum 2000. Hún var einstaklega jákvæð og lagði jafnan gott til mála, var full af áhuga og hugmyndum um það með hvaða hætti við sinntum skógræktarstarfinu best. Hvenær sem til hennar var leitað var hún boðin og búin að veita félaginu liðsinni sitt. Þegar við fórum að Múlastöðum nú á höfuðdaginn til að fagna kaupum félagsins á jörðinni, bað hún fyrir kveðjur, treysti sér ekki til að koma. Hún fagnaði þessum fyrstu jarðakaupunum félagsins. Fundargerðir hennar af aðalfundum félagsins voru bæði læsilegar, skýrar og fyrirmyndar heimild til að fletta upp í. Inga Rósa var sú tegund af manneskju sem gerði okkur sem sátu með henni í stjórn léttara í sinni. Þegar stjórnin gerði sér glaðan dag var hún hrókur alls fagnaðar, hún smitaði glaðværðina út frá sér. Þetta voru ánægjulegar samverustundir.

Að leiðarlokum þakkar stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur Ingu Rósu langt, ánægjulegt og farsælt samstarf. Hennar sæti verður vandfyllt. Við munum sakna hennar og minnast með miklum hlýhug. Eiginmanni og öðrum aðstandendum vottum við dýpstu samúð.
F.h. Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Þröstur Ólafsson.