Fréttir

Mikill gróðureldur í Heiðmörk

Mikill gróðureldur herjaði á hluta Heiðmerkur í gær og fram á nótt. Eldsins varð á fjórða tímanum í gær og voru starfsmenn félagsins og slökkvilið fljót á staðinn. Erfitt var að fást við eldinn vegna þess hve erfitt var að komast að svæðinu. Þá er Heiðmörk vatnsverndarsvæði og því þarf að gæta varúðar í notkun véla og tækja. Afar þurrt hefur verið í veðri undanfarið og mikill eldsmatur.

Slökkvilið, lögregla og Landhelgisgæslan börðust við eldinn fram á nótt og reyndu starfsmenn Skógræktarfélagsins að aðstoða eftir megni. Síðustu menn fóru af staðnum um klukkan fjögur um nóttina.

Gróðureldurinn í Heiðmörk fór yfir, að talið er, 56 hektara svæði. Á hluta þess var aðeins lággróður svo sem gras og lúpína. Annars staðar voru stöku tré eða þéttara skóglendi. Við upptökin fór eldurinn hratt yfir í grasi, án þess að valda miklum skaða á trjágróðri. Þegar á leið færðist eldurinn hins vegar í aukana og stórskemmdi eða eyddi trjám og runnum. Skemmdir á trjágróðri á svæðinu þar sem eldurinn herjaði eru því mismiklar.

Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur kanna ástand svæðisins í dag. Mikilvægt er að fylgjast með því að ekki leynist eldglæður í mosa eða öðrum lággróðri.

Á svæðinu sem brann í gær, Hjalladal, er algengasta trjátegundin stafafura. Þekkt er að stafafura sáir sér hratt eftir elda sem fræ hennar þola vel. Aðrar tegundir eru meðal annars ösp og greni. Gróðursetningar á svæðinu hófust árið 1986 og voru þarna nokkrir gamlir og vel grónir landnemareitir. Þá var jólaskógur Skógræktarfélags Reykjavíkur á þessu svæði í nokkur ár, fyrir örfáum árum síðan.

Heiðmörk nýtur mikilla vinsælda sem útivistarsvæði og náttúruparadís. Heiðmörk hefur líklega aldrei verið jafn fjölsótt og undanfarið ár. Heimsfaraldur Covid hefur enn á ný sýnt fram á mikilvægi þess að geta notið útiveru í fögru, víðlendu og skjólgóðu umhverfi. Í Heiðmörk eru einnig ómetanleg vatnsból.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur gesti Heiðmerkur til að hugsa vel um friðlandið og fara varlega með eld, sérstaklega þegar jafn gróður er jafn þurr og nú.

Rætt var við Auði Kjartansdóttur, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur í beinni útsendingu úr Heiðmörk, í kvöldfréttum RÚV.
Sævar Hreiðarsson, skógarvörður Heiðmerkur, fjallað um það í öðru viðtali, hve mikilvægt það er að fara varlega með eld í þurrkatíð eins og nú er. Sævar sagði allt of algengt að fólk sé að nota einnota grill í Heiðmörk.

Slökkvistarf í Hjalladal í Heiðmörk. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Sævar í viðtali við RÚV. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Gróðursett í Hjalladal 1986. Mynd: Ólafur G. E. Sæmundsen.

Gróðursett í Hjalladal 1986. Mynd: Ólafur G. E. Sæmundsen.