Jólamarkaður Skógræktarfélags Reykjavíkur á Elliðavatni verður haldinn í síðasta skiptið fyrir jól á Elliðavatni frá 11-17 um næstu helgi. Eins og undanfarnar helgar verður vönduð menningardagskrá í boði fyrir börn og fullorðna auk þess sem úrval af íslenskum hönnuðum og handverksmönnum bætist í hópinn. Á laugardeginum lesa Anna Ingólfsdóttir og Kristín Arngrímsdóttir upp úr bókum sínum ásamt Ritvélinni auk þess sem Timur Zolotusky heldur fyrirlestur um rússneska íkona. Á sunnudeginum munu Mikael Torfason og Gerður Kristný lesa upp úr bókum sínum og að lokum mun Halla Norðfjörð spila og syngja fyrir gesti.
Eins og áður gefst fólki kostur á fá lánaðar sagir og höggva sitt eigið jólatré í skóginum í Hjalladal með aðstoð jólasveina. Varðeldur, kakó og piparkökur verða á staðnum.Trén eru á sama verði og undanfarin ár, óháð stærð. Einnig verður hægt að velja úr miklu úrvali jólatrjáa á hagstæðu verði á Hlaðinu við Elliðavatnsbæinn og er þar opið alla daga fram að jólum.