Það er óhætt að segja að mikið sé um að vera hjá Skógræktarfélaginu á næstunni. Nú styttist í jólin og félagið verður með jólatrjáasölu á þremur stöðum:
1. Jólatrjáasalan í Kauptúni Garðabæ opnar 10. desember. Þetta er í Kauptúni 3 við hliðina á Bónusi nálægt Ikea og er það í fyrsta sinn sem félagið er með söluaðstöðu þar. Þar gefst fólki kostur á að versla úrvals, nýhöggvin, íslensk tré á góðu verði. Einnig eru til sölu hin vinsælu tröpputré og eldiviður úr Heiðmörk. Opnunartími er virka daga klukkan 15-21 og 10-21 um helgar fram að jólum.
2. Jólaskógurinn í Hjalladal Heiðmörk opnar síðan laugardag 11. desember. Hjá mörgum fjölskyldum er það orðin hefð að velja sjálf sitt jólatré í Hjalladal og njóta útiveru og jólastemningar í Heiðmörkinni. Skógarvörðurinn útvegar sagir og allir fá kakó og piparkökur, varðeldur er tendraður og jólasveinarnir mæta á svæðið. Auk þessa verða nú nýhöggvin tré til sölu á staðnum, tröpputré og eldiviður. Borgarstjórinn í Reykjavík mætir ásamt fjölskyldu sinni klukkan 11 þann 11. desember og opnar Jólaskóginn. Opnunartími er klukkan 11-16 tvær helgar fyrir jól.
3. Jólamarkaðurinn Elliðavatni Heiðmörk verður síðan opinn þriðju helgina í röð. Þar verður jólatjáasala eins og fyrri helgar og einnig mikið úrval tröpputjáa og eldiviður í stöflum. Fjöldi handverksfólks býður fram vörur sínar, hestaleiga verður í gangi og fjölbreytt menningardagskrá, eins og sjá má hér neðar á síðunni. Opnunartími er klukkan 11-17 fjórar helgar fyrir jól.
Hlaðið: Miðsvæði Jólamarkaðarins umlukið jólahúsum á aðra hönd og bænum á Elliðavatni á hina. Þar selur Skógræktarfélagið jólatré, tröpputré og eldivið og eldur logar þar í útiarni.
Gamli salurinn: Á efri hæðinni eru myndir til sýnis á veggjum og rekin kaffistofa með alvöru kakói, vöfflum og flatkökum. Á neðri hæðinni er til sýnis og sölu margskonar íslenskt handverk.
Kjallarinn: Í skrifstofuhúsinu á Elliðavatni þar sem Skógræktarfélagið hefur bækistöð sína. Í Kjallaranum heldur Sirrý spákona til. Auk þess eru þar sölu- og kynningarborð fyrir góðgerðafélög og fjölda handverksmanna.
Rjóðrið: Rjóður í greniskógi í um 100 metra fjarlægð frá bænum á Elliðavatni. Þar er kveiktur varðeldur og haldin Barnastund kl 14 hvern markaðsdag. Jólasveinar koma i heimsókn.