Becky D´Arcy, sem var starfsnemi hjá félaginu fyrir nokkrum misserum, lauk nýlega meistararitgerð sinni frá Bangor háskólanum í Wales. Becky rannsakaði hvaða áhrif gróðureldurinn í Heiðmörk vorið 2021 hafði á lífmassa trjáa ofan jarðar. Eldurinn fór yfir rúma 56 hektara.
Í rannsókn Becky, mældi hún og reiknaði út hve mikill trjámassi hefði tapast í eldinum og hve mikið kolefni losnað. Þá vann hún greiningu, út frá mæligögnum, á því hvaða þættir hefðu helst áhrif á hvernig trjánum reiddi af. Það sem einkum hafði áhrif á það hve illa trén urðu úti í eldinum, var gróðurhula, hæð trjánna og halli í landslaginu.
Niðurstöðurnar eru framlag til rannsókna á gróðureldum á Íslandi og nýtast í mælingum og rannsóknum í framtíðinni.
Á myndinni hér að ofan er Becky að taka út lifun trjáa eftir gróðureldinn, ásamt Bjarka Þór Kjartanssyni, landfræðingi hjá rannsóknarstöð Skógræktarinnar og kennara við Landbúnaðarháskóla Íslands.