Helgin 16. og 17. desember er síðasta helgin á Jólamarkaðnum í Heiðmörk og Jólaskóginum á Hólmsheiði þetta árið. Síðustu vikuna fyrir jól verður Skógræktarfélag Reykjavíkur með jólatrjáasölu á Lækjartorgi.
Jólamarkaðurinn í Heiðmörk er opinn kl. 12—17, laugardag og sunnudag. Á markaðnum er notaleg jólastemmning. Jólamarkaðstréð er á torginu við Elliðavatnsbæinn, skreytt einstöku og skemmtilegu skrauti eftir Lilý Erlu Adamsdóttur. Eldsmiður verður að störfum, lifandi eldur logar og kannski leggur yfir torgið ilm af nýristuðum möndlum, sem hægt er að kaupa ásamt öðrum veitingum. Þá er hægt að tylla sér inn í jólasal Elliðavatnsbæjarins sem er skreyttur af nemendum Hjallastefnunnar. Á handverksmarkaðnum er hægt að kaupa einstakt handverk og innlend matvæli úr náttúrulegum hráefnum.
Í Rjóðrinu, skammt frá Elliðavatnsbænum, er Barnastund klukkan 14 hvern opnunardag. Þar er hægt að setjast við varðeld og hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum bókum. Nú um helgina les Benný Sif á laugardeginum og Bergrún Íris Sævarsdóttir á sunnudeginum.
Jólatré, tröpputré og greinar eru til sölu. Jólatrén eru að sjálfsögðu öll íslensk, vistvæn og ræktuð án skordýraeiturs. Margir fastakúnnar koma sérstaklega til að kaupa „einstöku trén“ og skemmta sér við að velja oft á tíðum mjög skúlptúrísk tré. Verðskrá fyrir jólatré og tröpputré má finna hér. Fyrir hvert selt tré, eru 50 gróðursett.
Gestum er bent á að klæða sig vel og njóta útivistarsvæðisins í Heiðmörk þegar þeir heimsækja Jólamarkaðinn. Út frá Elliðavatnsbænum er fjöldinn allur af gönguleiðum sem sjá má á korti hér.
Jólaskógurinn er opinn kl. 11–16. Í Jólaskóginum verður varðeldur. Jólasveinar kíkja í heimsókn og hægt að kaupa kaffi og kruðerí. Hægt er að fá lánaðar sagir á staðnum en við hvetjum gesti til að taka með sér sínar eigin sagir. Leiðarlýsing er hér. Leiðin er einstefna – ekið er í skóginn og svo úr honum annars staðar, í stað þess að snúa við og fara sömu leið til baka.
Föstudaginn 15. desember kemur svo jólastemmningin úr skóginum í bæinn. Skógræktarfélag Reykjavíkur verður með jólatrjáasölu á Lækjartorgi vikuna fyrir jól, í samstarfi við Reykjavíkurborg. Opið verður 15. – 22. desember sem hér segir:
- Föstudaginn 15. des : kl 14:00 – 18:00
- Laugardaginn 16. des : kl 16:00 – 20:00
- Sunnudaginn 17. des : kl 16:00 – 20:00
- Mánudaginn 18. des : kl 14:00 – 18:00
- Þriðjudaginn 19. des : kl 14:00 – 18:00
- Miðvikudaginn 20. des : kl 14:00 – 18:00
- Fimmtudaginn 21. des : kl 14:00 – 18:00
- Föstudaginn 22. des : kl 14:00 – 20:00