Fréttir

Lokað fyrir bílaumferð um hluta Heiðmerkur

Nú þegar samkomubann er í gildi á Íslandi, og margt fólk vill forðast staði eins og sundlaugar og líkamsræktarstöðvar, er fullt tilefni til að benda á gildi útivistar í fallegu umhverfi. Útivist er góð leið til að forðast samkomur og huga um leið að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Í Heiðmörk ætti líka að vera auðvelt að halda að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð milli fólks. Undanfarna daga og vikur hefur viðrað mjög vel til útivistar í Heiðmörk.

Því miður er nú lokað fyrir bílaumferð um stóran hluta Heiðmerkur. Ástæðan er mikill snjór sem þjappast í svell og erfiðað akstursskilyrði. Vegna þessara aðstæðna, óskuðu Veitur eftir því að lokað yrði fyrir bílaumferð um Heiðmerkurveg nærri vatnsverndarsvæðum. Þetta var talið nauðsynlegt til að tryggja mætti öryggi vatnsverndarsvæðanna enda gæti olíuleki vegna bílslyss valdið miklu tjóni. Veitur hafa óskað eftir því að lokað verði fyrir bílaumferð þar til snjóa leysir.

Þrátt fyrir þetta er Heiðmörk öll eftir sem áður opin fólki sem er gangandi, á skíðum eða hjólum. Þá er hægt að aka inn á útivistarsvæðið og leggja á bílastæðum fjarri vatnsverndarsvæðunum og leggja upp þaðan.

Reykjavíkurmegin er hægt að leggja bílum á bílastæðinu við Helluvatn og auðvitað í Rauðhólum. Heiðmerkurvegur er svo lokaður frá og með Elliðavatnsafleggjaranum. Frá bílastæðinu við Helluvatn er til dæmis hægt að ganga eftir merktum göngustíg umhverfis Heimaás eða fara gönguleiðina Vatnahring, sem er sjö og hálfur kílómetri, þótt nokkur snjór sé á gönguleiðinni.

Garðabæjarmegin er opið fyrir bílaumferð allt að Búrfellsgjá. Því er hægt að leggja bílum við Vífilsstaðahlíð, og á bílastæðinu við Búrfellsgjá. Eftir það er vegurinn lokaður enn sem komið er. Við þessi bílastæði þrjú er fjöldi gönguleiða og merktir göngustígar.

Gönguleiðir og stígar eru merkt inn á kort af Heiðmörk sem nálgast má hér. Þá hefur Garðabær útbúið þetta kort yfir göngu- og hlaupaleiðir í Heiðmörk.

Skógræktarfélag Reykjavíkur og gönguskíðafélagið Ullur hafa farið þess á leit við borgaryfirvöld að Heiðmerkurvegur sé ruddur þegar aðstæður krefjast þess, svo fólk geti komist inn að hjarta útivistarsvæðisins og göngustígakerfinu þar. Þetta skiptir sérstöku máli nú þegar þrengir að öðrum möguleikum fólks til að stunda líkamsrækt og íþróttaæfingar.

Útivist í Heiðmörk yfir vetrartímann hefur aukist mjög síðustu ár, meðal annars með auknum vinsældum gönguskíða. Á bestu dögum hafa nokkur hundruð manns notað gönguskíðabraut við Hjallabraut. Þar er jafnan hægt að stunda skíðagöngu þegar lokað er í Bláfjöllum vegna veðurs. Þá hafa verið þjappaðar brautir til hjólreiða, af Icebike, og njóta þær mikilla vinsælda.

Skógræktarfélagið vonast til að hægt verði að ryðja vegi og opna fyrir alla umferð um Heiðmörk sem fyrst.