Á döfinni

Ljúffengt síðsumar í Heiðmörk

Þegar síga tekur á sumarið gefst gestum Heiðmerkur tækifæri til að tengja saman útivist og mataráhuga. Gómsætir sveppir eru byrjaðir að pota sér upp úr jörðinni og pattaraleg bláber tekin að þroskast á lyngi. Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur þegar hún var úti að hlaupa í Heiðmörkinni í liðinni viku. Milt sumarveðrið er enda tilvalið til útivistar, hvort sem það eru gönguferðir, hlaup, hjólaferðir, berja- eða sveppatínsla, eða stangveiði í Elliðavatni.

Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Berjatínslu hefur fólk eflaust stundað í Heiðmörk frá því löngu áður en byrjað var að kalla svæðið því nafni og rækta þar skóg – fyrir 70 árum. Nýting sveppa hefur ekki verið jafn fyrirferðarmikil á Íslandi, enda dafna þeir margir best í og við skóglendi, sem lengst af var af skornum skammti. Ólafur G. E. Sæmundsen, sem lengi starfaði fyrir Skógræktarfélag Reykjavíkur í Heiðmörk, segir að fyrstu hóparnir sem tíndu skógarsveppi í Heiðmörk hafi verið starfsmenn erlendra sendiráða. Hann og samstarfsmenn hafi séð sendiráðsbílum lagt í skógarjaðri og fólk sem greinilega var að tína eitthvað. Ekki voru það þó ber, því fólkið hélt inn í skóginn og vakti það athygli Íslendinganna. Ólafur telur að þetta hafi verið upp úr 1965 – löngu áður en Íslendingar fóru að tína skógarsveppi. Starfsfólk erlendra sendiráða kom hins vegar margt frá skógarþjóðum, þar sem hefð var fyrir því að tína skógarsveppa.

Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Mikilvægt er að þekkja þá sveppi sem tíndir eru og borða aðeins sveppi sem öruggt er að séu ætir. Margir góðir matsveppir fyrirfinnast í íslenskri náttúru en einnig sveppir sem eru hættulega eitraðir. Þá ætti fólk aðeins að borða unga sveppi en ekki þá sem eru gamlir og mjúkir. Almennar reglur um sveppatínslu má finna á vef Ferðafélags Íslands. Í Heiðmörk má finna matsveppi á borð við furusvepp, lerkisvepp og kúalubba, sem sést á myndinni hér að ofan.

Gönguleiðir og stígar í Heiðmörk eru merktir inn á kort af Heiðmörk sem nálgast má hér. Þá hefur Garðabær útbúið þetta kort yfir göngu- og hlaupaleiðir í Heiðmörk.