Fréttir

Ljósin tendruð á jólatrjánum í Þórshöfn og á Austurvelli

Ljósin á Þórshafnartrénu voru kveikt á Tinghúsvellinum í Færeyjum á laugardaginn var. Sú hefð hefur myndast að Reykvíkingar gefi Færeyingum jólatré og var það fyrst gert árið 2013. Tréð var fellt í Heiðmörk á sama tíma og Oslóartréð og flutt til Þórshafnar með Eimskipum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi afhenti tréð og flutti kveðju frá Íslandi og Heðin Mortensen borgarstjóri flutti ávarp. Létt snjókoma var í Þórshöfn og gerði það viðburðinn sérlega jólalegan. Jólasveinar voru á ferli og flutt voru jólalög.

Ljósin á Oslóartrénu voru kveikt í beinni útsendinu RÚV á sunnudagskvöld. Vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að halda fjölmennan viðburð á torginu.

Kveikt á trénu með hjálp jólasveinsins. Mynd: Ólavur Frederiksen/faroephoto.fo.

Þórshafnartréð á Tinghúsvelli. Mynd: Ólavur Frederiksen/faroephoto.fo.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir flytur Færeyingum kveðju frá Íslandi. Mynd: Ólavur Frederiksen/faroephoto.fo.

Jólastemning í Þórshöfn. Mynd: Ólavur Frederiksen/faroephoto.fo.