Fréttir

Líklega minnsti skógur sem félagið hefur ræktað

Á horni Birkimels og Hringbrautar, við Þjóðarbókhlöðuna, er myndarlegur trjálundur, þótt ekki sé hann stór. Trjálundurinn á nú tvö ár í fertugt. Hann var gróðursettur 1986, sem gjöf Skógræktarfélags Reykjavíkur til Reykjavíkurborgar á 200 ára afmæli borgarinnar.

Trjálundurinn var afhentur Reykjavíkurborg á Skógardaginn, 7. júní 1986. Á yfirlitsmynd í Morgunblaðinu má sjá nýgróðursettar plönturnar: „96 sitkagreni og 24 Alaska-aspir. Allt eru þetta stórar plöntur um og yfir 2 metrar á hæð.“ Og svo sér yfir kirkjugarðinn við Suðurgötu, með sínum fjölbreytilega trjágróðri. Sem var raunar talsvert lágvaxnari þá en nú.

Þjóðviljinn birti myndir af gróðursetningunni og sagði frá hinum nýja skógi. „Við Þjóðarbókhlöðuna við Hringbraut er nú risinn skógur á ótrúlega skömmum tíma. (…) Lundinum er plantað samkvæmt teikningu Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts og mun hann hafa tekið mið af skjólinu sem myndast af kirkjugarðinum og gamla grenilundinum við Suðurgötu annars vegar og Þjóðarbókhlöðunni hins vegar.“

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur komið að skógrækt á mörgum svæðum, stórum sem smáum. Ef hægt er að kalla lundinn við Þjóðarbókhlöðuna skóg, þá er þetta örugglega minnsti skógurinn sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur ræktað upp.

Ekki er skóglendið stórt þótt trén séu bæði hávaxin og myndarleg.
Í smá-skóginum við Þjóðarbókhlöðuna eru nú 17 grenitré og 12 aspir. Greinilega hefur verið grisjað tiltölulega nýlega. Inn á milli trjánna má sjá blóm, runna og ung reynitré, sem mögulega eru sjálfsáð.