Fréttir

Leik- og dvalarsvæði í skógarstíl með timbri úr Heiðmörk

Við Rauðavatn hefur Reykjavíkurborg látið byggja leik- og dvalarsvæði í skógarstíl, meðal annars skógarskýli sem gert er úr timbri úr Heiðmörk. Ætlunin er að auðvelda aðgengi að Rauðavatni og gera fólki kleift að upplifa lífríkið við vatnið – ekki síst fuglalífið. Aðstaðan nýtist líka vel á veturna, til dæmis fyrir skautafólk. Auk skógarskýlisins eru þarna bekkir, borð, leiktæki, grillaðstaða og snagaskýli.

Leik- og dvalarsvæðið er hluti af uppbyggingu útivistarsvæða á austurheiðum borgarinnar.

Svæðið var hannað af Landmótun og Mannviti. Stéttafélagið sem sá um framkvæmdir og leitaði til Skógræktarfélags Reykjavíkur eftir íslensku timbri úr Heiðmörk. Úr skógarskýlinu sést svo yfir Rauðavatn að Rauðavatnsstöðinni. Þar eru elstu skógræktartilraunir á höfuðborgarsvæðinu og skóglendið sem Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað til að rækta upp.

Fleiri myndir af þessum flotta áningarstað má sjá á Facebook-síðu Landmótunar.