Akstursleið gesta í Heiðmörk myndi lengjast um allt að þrjá kílómetra, samkvæmt deiliskipulagstillögu að tvöföldun Suðurlandsvegar. Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við þetta og mælist til að önnur leið sé farin. Þá bendir félagið á að brýnt sé bæta aðgengi að grænum svæðum, meðal annars með því að bæta almenningssamgöngur.
Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar var auglýst 3. júlí. Svæðið sem fjallað er um nær frá vegamótunum við Bæjarháls að bæjarmörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar við Hólmsá. Á svæðinu eru meðal annars vegamótin við Heiðmerkurveg — sú leið sem flestir gestir friðlandsins fara. Í umhverfismati framkvæmdanna voru skoðaðir tveir valkostir fyrir vegamótin— valkostur 1 og 2.
Í umsögn félagsins segir meðal annars
„Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við að í skipulagstillögunni sé unnið út frá valkosti 2, sem felur í sér að umferð frá Heiðmörk til vesturs þurfi að aka í krók til austurs að hringtorgi við Hafravatnsveg áður en haldið er vestur. Þetta lengir akstursleið gesta um allt að 3 km. Tillaga 1 sem gerir ráð fyrir vegtengingu beint til vesturs út Heiðmörkinni er mun heppilegri að mati félagsins.“
Að mati félagasamtakanna ætti frekar að vinna að því að bæta aðgengi að grænum svæðum á borð við Heiðmörk. „Óþarfa hindranir, kostnaður og umferðarkrókar fækka heimsóknum að Heiðmörk og draga úr jákvæðum áhrifum svæðisins á heilsu, hreyfingu, félagslega virkni og tengingu við náttúru.“ Segir í umsögninni.
Þá hvetur félagið til þess að almenningssamgöngur verði bættar svo auðveldara sé fyrir fólk að komast í Heiðmörk.
„Mikilvægt er jafnframt að fjölga stoppistöðvum, til dæmis við Hraunslóð og Rauðhóla, þannig að aðgengi sé tryggt inn í Heiðmörk. Þetta þarf að vera gert í nánu samstarfi við þá deiliskipulagsvinnu sem nú er í gangi fyrir Heiðmörk, svo að tryggt sé að lausnirnar þjóni sem best öllum hópum samfélagsins, þar með talið eldra fólki, börnum og hreyfihömluðum. Almenningssamgöngur skipta lykilmáli í að tryggja jafnt aðgengi að náttúru og útivist.“
„Tillagan eins og hún liggur fyrir er ekki ásættanleg. Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur eindregið til þess að hún verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja jafnt aðgengi að Heiðmörk til framtíðar.“