Fréttir

Landsátakið Söfnum og sáum birkifræi  2023 hefst í Heiðmörk

Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi 2023, hefst formlega í Heiðmörk,  miðvikudaginn 13. september kl. 18:00.

Dagskráin hefst við Elliðavatnsbæinn í Heiðmörk. Þar verður stutt fræðsla um söfnun og sáningu á birkifræi, tilgang og fyrirkomulag landsátaksins. Að því loknu verður haldið af stað út í skóg og birkifræi safnað.

Hvernig fræi er best að safna?

Birkitré eru jafn ólík og þau eru mörg. Við fræsöfnun borgar sig að hafa í huga að tréð sem í framtíðinni vex upp af fræinu, verður líklega mjög líkt trénu sem fræið er tínt af. Mikill munur er á því hve öflug mismunandi yrki (erfðahópur) eru – hve hratt þau vaxa, hve hátt, hvort þau eru bein eða kræklótt, þol gagnvart sjúkdómum og fleira.

Mest af birkifræi í Vesturbyggð

Síðustu daga hefur verið unnið að því að kortleggja hversu mikið birkifræ finnst á trjám vítt og breitt um landið. Magn birkifræja í ár er ekki með því besta sem sést hefur á höfuðborgarsvæðinu og þarf aðeins að hafa fyrir því að finna tré með sæmilegu fræmagni. Þar á því vel orðatiltækið „leitið og þér munuð finna“.

Lítið er um fræ bæði á Norður- og Austurlandi en reytingur á Suður- og Vesturlandi. Í Vesturbyggð má aftur á móti víða finna talsvert magn fræja en minna annars staðar á Vestfjörðum. Því er ástæða til að hvetja íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum sérstaklega til dáða í ár.

Í fyrra söfnuðust 150 lítrar á Suður- og Vesturlandi eða um 14, 5 kíló. Á Norður- og Austurlandi söfnuðust 417 lítrar eða 40 kíló.

Birkiskógar þeki fimm prósent landsins árið 2030

Landsátakið „Söfnum og sáum birkifræi“ fer fram í fjórða skipti í ár. Þjóðin tók vel við sér þegar fyrst var efnt til átaksins árið 2020. Mikið magn fræja hefur safnast á síðustu árum og það notað til að rækta upp stór uppgræðslusvæði.

Sem kunnugt er stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Verkefnið Söfnum og sáum birkifræi er liður í því að Ísland nái þessu markmiði. Tilgangurinn er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Fólk um allt land er hvatt til að leggja sitt að mörkum. Annað hvort með því að safna fræi og skila því á móttökustöðvar eða sá fræinu á beitarfriðuðum svæðum þar sem vilji er til að klæða land birkiskógi eða -kjarri. 

Hægt er að sækja öskjur í verslanir og þjónustustöðvar Bónus og Olís. Þar verða líka kassar sem skila má fræinu í.

Bakhjarlar verkefnisins

Bakhjarlar verkefnisins eru Prentmet Oddi, Bónus og Olís. Þá vinnur Landvernd einnig að því að virkja fólk til þátttöku og að verkefninu vinna ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni, Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Kópavogs, Lionshreyfingunni og Kvenfélagasambandi Íslands. Í Norður-Þingeyjarsýslu má sækja öskjur og skila fræi í verslunina í Ásbyrgi í Kelduhverfi.