Fréttir

Könglatínsla í Heiðmörk

Laugardaginn 23. október kl. 13 býður Skógræktarfélag Reykjavíkur áhugasömum að tína stafafuruköngla í Heiðmörk. Hópurinn hittist við bílastæðið vestan við Þjóðhátíðarlund (sjá hér). Allir könglar sem tíndir verða þennan dag verða seldir til Skógræktarinnar sem safnar fræjum úr könglunum. Ágóðinn af könglatínslunni fer til gróðursetningar á þeim svæðum sem brunnu í Heiðmörk síðastliðið vor.

Áður en haldið er út í skóg mun Aðalsteinn Sigurgeirsson hjá Skógræktinni, og varaformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur fara yfir praktísk atriði. Til að mynda hvernig þekkja má tveggja ára köngul og hvernig best er að bera sig að við tínsluna. Þátttakendum er bent á að klæða sig eftir veðri. Mjög mikilvægt er að hafa góða vinnuvettlinga þar sem könglarnir eru broddóttir. Ílát til tínslunnar verða á staðnum. Könglatínslan hentar allri fjölskyldunni og því kjörið að fjölmenna, læra um skóginn og láta gott af sér leiða í leiðinni. Félagið býður upp á ketilkaffi og heitt kakó.

Áhugasömum er beint á kennslumyndband með Aðalsteini: STAFAFURA – tínum köngla – YouTube

Hlekkur á viðburðinn á Facebook er hér.