Fréttir

Keppt í hlaupi í Heiðmörk og á hjólum í Esjuhlíðum

Það var mikið um að vera útivistarsvæðum Skógræktarfélags Reykjavíkur um helgina. Í Heiðmörk var keppt í Bakgarði Náttúruhlaupa en í Esjuhlíðum efndi fjallahjólafólk til Enduromóts.

Frá laugardagsmorgni til sunnudagskvöld

Mikil þátttaka var í Bakgarðshlaupinu sem var í Heiðmörk í fjórða skipti. Yfir tvö hundruð hlauparar tóku þátt. Fyrirkomulag hlaupsins er þannig að keppendur fá klukkutíma til að ljúka hring sem er 6,7 kílómetra langur. Tíminn sem gefst til hvíldar á milli, fer eftir því hve hratt er lokið við hringinn. Keppt er í því að ljúka sem flestum hringjum.

Marlena Radziszewska fór með sigur af hólmi og hljóp hún 38 hringi. Sem eru um 254,6 kílómetrar. Elísa Kristinsdóttir hljóp 37 hringi og varð í öðru sæti. Flóki Halldórsson varð í þriðja sæti eftir að hafa hlaupið 36 hringi.

Bakgarðshlaupið var ræst klukkan níu á laugardagsmorgun og stóð yfir í rúmlega einn og hálfan sólarhring, eða til klukkan ellefu  á sunnudagskvöld.

Brunað um Esjuna

Góð þátttaka var í Enduromótinu í Esjuhlíðum sem hjólreiðafélagið Tindur gekkst fyrir. 69 tóku þátt í mótinu sem fór fram á sunnudeginum.

Keppt í nokkrum flokkum, meðal annars almenningsflokki þar sem ekki var tímataka. Eða eins og aðstandendur orðuðu það:  „vonum að allir finni flokk við sitt hæfi og taki þátt í þessari frábæru skemmtun með okkur, og loki þannig geggjuðu fjallahjólasumri 2023!”

Helgi Berg Friðþjófsson bar sigur úr býtum á mótinu. Í öðru sæti varð Börkur Smári Kristinsson. Og Þórir Bjarni Traustason í því þriðja.

Fyrir keppnina var töluverð vinna lögð  í hjólaleiðir, grisjun, viðgerð á brú og fleira. Jón Haukur Steingrímsson stýrði þeirri vinnu með hjálp frá sjálfboðaliðum Tinds. Þeim er þakkað kærlega fyrir framlag sitt við að byggja upp útivistarsvæðin í Esjuhlíðum.

Marlena Radziszewska, kát á öðrum degi hlaupsins. Mynd: Náttúruhlaup.
Elísa Kristinsdóttir nýtir tímann milli hringja vel. Hvíld, næring, vökvi og nudd. Mynd: Natturuhlaup.
Marlena, Elísa og Flóki leggja í enn einn hringinn. Mynd: Náttúruhlaup.
Sjálfboðaliðar á vegum hjólreiðafélagsins Tinds við nýja brú í Esjuhlíðum.
Hjólaleið löguð í Esjuhlíðum. Mynd: Börkur Smári Kristinsson.
Jón Haukur Steingrímsson dedúar við skilti sem vísar gangandi og hjólandi á viðeigandi leiðir.
Grisjað var á stöku stað í skóglendinu. Mynd: Börkur Smári Kristinsson.