Jólamarkaðurinn Elliðavatni heldur áfram og fer nú í hönd fjórða helgin. Mjög góð aðsókn hefur verið á markaðinn og fólk notið þess að fara upp í Heiðmörk og upplifa náttúruna og hina sérstöku jólastemningu sem þar ríkir. Auk hefðbundinnar jólatrjáasölu Skógræktarfélagsins er fjöldi íslenskra handverksmanna með söluborð víðs vegar á markaðnum; markaðskaffihús er opið allan tímann, tónlistarfólk kemur fram með reglulegu millibili og rithöfundar lesa upp úr nýjum bókum sínum. Hin vinsæla hestaleiga er opin um miðjan daginn og Stúfur kemur áreiðanlega í heimsókn aftur. Að þessu sinni mæta líka nokkrir björgunarhundar með Rústabjörgunarsveit frá Landsbjörgu. Á Hlaðinu verður síðan Möndluristir og býður upp á ristaðar möndlur að hætti Mið-Evrópubúa. Vegna mikillar umferðar um síðustu helgi verður nú sérstök umferðarstýring á svæðinu til að létta gestum aðkomuna. Opið klukkan 11-17 og allir velkomnir!
Hinn hefðbundni Jólaskógur í Hjalladal Heiðmörk verður síðan opinn meðan birtur nýtur, bæði laugardag og sunnudag. Ætlaður þeim sem vilja saga sín tré sjálfir. Jólasveinar, kakó og piparkökur handa öllum.
Þá hefur Skógræktarfélagið opnað nýja Jólatrjáasölu í Kauptúni Garðabæ þar sem er opið til klukkan 21 á hverju kvöldi fram að jólum. Stór og björt húsakynni þar sem í boði eru úrvals, nýhöggvin íslensk jólatré.