Fréttir

Jólamarkaðurinn í undirbúningi

Undirbúningur  fyrir Jólamarkaðinn í Heiðmörk er í fullum gangi enda mörg verk sem þarf að sinna áður en markaðurinn opnar. Starfsmenn hafa þegar sótt nokkurn fjölda jólatrjáa út í skóg, færanlegum jólahúsum hefur verið komið fyrir við Elliðavatnsbæinn og Jólamarkaðstréð er komið á sinn stað. Markarðurinn verður, venju samkvæmt opin kl. 12-17 allar aðventuhelgar við Elliðavatnsbæinn auk þess sem Jólaskógur þar sem gestir geta sótt sitt eigið tré út í skóg verður á Hólmsheiði síðustu þrjár helgarnar fyrir jól.

Á Jólamarkaðinum í Heiðmörk selur félagið jólatré, rekur lítið kaffihús og stendur fyrir handverksmarkaði þar sem gestir geta keypt spennandi vörur til gjafa eða eigin nota beint af handverksfólki. Færri söluaðilar komust að en vildu en á handverksmarkaðinum er lögð áhersla á fallegt handverk úr náttúrulegum efnum auk þess sem innlend matvæli og snyrtivörur eru á boðstólum. Margar barnafjölskyldur hafa það fyrir hefð að heimsækja jólamarkaðinn og hlýða á rithöfunda lesa úr nýútkomnum barnabókum yfir varðeldi í Rjóðrinu. Þessi dagskrárliður er afar vinsæll en hann er á dagskrá alla daga markaðarins kl. 14.

Fyrsta opnunarhelgi Jólamarkaðarins í Heiðmörk er 26.-27. nóvember. Sú skemmtilega hefð hefur skapast að sönghópur úr Norðlingaskóla syngi jólalög fyrsta opnunardaginn. Þann dag er Jólamarkaðstréð einnig opinberað en á hverju ári er fenginn nýr listamaður til að skreyta tréð. Að þessu sinni er það Unndór Egill Jónsson sem spreytir sig á því verkefni en hann vinnur listaverk sín gjarnan úr íslensku birki. Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirkomulag markaðarins verður birt um miðja næstu viku – Velkomin á Jólamarkaðinn í Heiðmörk!