Fyrsta opnunarhelgi Jólamarkaðarins í Heiðmörk er nú fyrstu helgi í aðventu — 26. og 27. nóvember.
Jólamarkaðurinn er opinn frá klukkan 12-17, laugardag og sunnudag. Jólatrjáasala félagsins er á sínum stað, eldsmiður verður að störfum og handverksmarkaður með einstökum vörum. Kakó & krúðeri er selt úr jólakofa á torginu. Gestir geta setið úti á nýjum bekkjum, sem smíðaðir eru úr timbri úr Heiðmörk af Fangaverki, eða tylla sér inn í kjallara Elliðavatnsbæjarins.
Sönghópur úr Norðlingaskóla og Jólamarkaðstréð afhjúpað
Fyrsta opnunardaginn, laugardaginn 26. nóvember, verður ýmislegt spennandi á dagskrá. Skrautið á Jólamarkaðstrénu verður afhjúpað klukkan 12. Unndór Egill Jónsson gerði skrautið úr birki sem grisja þurfti í Heiðmörk. Unndór hefur getið sér gott orð sem myndlistamaður en hann vinnur verk sín gjarnan úr íslensku birki. Sú skemmtilega hefð hefur skapast að sönghópur úr Norðlingaskóla taki lagið á opnunardaginn og hefst það um klukkan 12.30.
Barnastund og varðeldur í Rjóðrinu
Í Rjóðrinu, rétt við Elliðavatnsbæinn, verður Barnastund hvern opnunardag klukkan 14. Á laugardeginum les Bergrún Íris Sævarsdóttir úr bók sinni, Kennarinn sem fuðraði upp!. Og á sunnudeginum les Sigrún Eldjárn, úr bók sinni, Ófreskjan í mýrinni. Í Rjóðrinu er skjól af hávöxnum grenitrjám, trébekkir og varðeldur og hefur myndast notaleg stemmning þar undanfarin ár.
Lögð er rík áhersla á ljúfa og notalega stemmingu og að gestir njóti útiveru í Heiðmörk um leið og þeir heimsækja markaðinn sem staðsettur er við Elliðavatnsbæinn (sjá hér).
Heiðmörk er einstakt útivistarsvæði, en gróðursetning þar hófst fyrir rúmum 70 árum. Á þessum tíma hefur tekist að skapa ekki bara einstakt útivistarsvæði heldur einnig nytjaskóg. Megnið af jólatrjánum sem seld eru í ár, koma úr Heiðmörk. Fyrir hvert selt tré eru 50 gróðursett og styðja kaupendur jólatrjáa því við skógrækt með kaupunum.
Á Jólamarkaðnum í Heiðmörk er lögð áhersla á notalega upplifun utandyra og að skapa sem bestar aðstæður fyrir gesti en nauðsynlegt er að klæða sig vel.
Jólaskógurinn á Hólmsheiði opnar aðra helgina í aðventu — 3. og 4. desemberr. Þá verður félagið með jólatrjáasölu á Lækjartorgi þegar nær dregur jólum. Nánari upplýsingar má finna hér.