Fréttir

Jólamarkaðurinn Elliðavatni 2014

Jólamarkaðurinn vinsæli á Elliðavatni opnar laugardaginn 29. nóvember og verður opinn allar helgar fram að jólum frá klukkan 11-16.

Mikið úrval af íslensku handverki og hönnun. Á Hlaðinu verða til sölu nýhöggvin íslensk jólatré og þar að auki mikið úrval af tröpputrjánum vinsælu. Einnig eldiviður og viðarkyndlar.

Markaðurinn

Í Gamla salnum, Hlöðunni og í litlu Jólahúsunum á torginu verður fjölbreyttur hópur handverksfólks sem kynnir vörur sínar og selur.

Markaðurinn býður upp á ekta stemmingu þar sem handverksfólk og hönnuðir kynna og selja sína vörur. Það verður fjölbreytt úrval af fallegu handverki skartgripum, ýmiskonar ullar- og leðurvörum, og einnig má finna gjafir, skreytingar og kræsingar af öllu tagi.

Rithöfundar koma og lesa upp úr nýjum bókum sínum bæði fyrir börn og fullorðna. Jólasveinar koma og heilsa upp á börnin, fara í leiki og syngja. Kórar, harmonikkuleikarar og fleira gott tónlistarfólk hafa séð okkur fyrir fallegum tónum, og svo margt fleira.Kaffistofan

Kaffistofan verður niðri í Elliðavatnsbænum þar sem fjölskyldan getur fengið sér hressingu í anda jólanna og átt notalega stund.

Rjóðrið

Rjóðrið er trjálundur rétt við Elliðavatnsbæinn þar sem hægt er að setjast á bekki kringum logandi varðeld. Barnastundin verður þar klukkan 14 og þá kemur barnabókahöfundur og les upp fyrir börnin.

Jólasveinar koma í heimsókn á markaðinn, og kíkja líka á börnin í rjóðrinu eftir upplesturinn. Þeir syngja og tralla frá 13.30-15.30.

Jólamarkaðurinn á Elliðavatni er dásamlegur staður, til að flýja ys og þys borgarinnar um stund, og til að finna réttu jólastemninguna í friðsælu og fallegu umhverfi.

Munið – það tekur aðeins 15 mínútur að aka frá miðbæ Reykjavíkur að Elliðavatnsbænum í Heiðmörk
Nánari upplýsingar um menningardagskrá Jólamarkaðsins er að finna á fésbókarsíðunni, Jólamarkaðurinn Elliðavatni.

Markaðstréð 2014 skreytt af Gerði Jónsdóttur listakonu.

jólatréð á markaðstorginu