Jólamarkaðurinn við Elliðavatnsbæ í Heiðmörk er haldin allar aðventuhelgar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur verið mikil og ljúf jólastemming hjá okkur á aðventunni og það er ánægjulegt að sjá að heimsókn á Jólamarkaðinn hefur fest sig í sessi sem aðventuhefð hjá mörgum fjölskyldum.
Hugsjón Jólamarkaðsins er að stuðla að fjölskylduupplifun í vetrarparadís þar sem fólk kemur og nýtur sín í skóginum, velur jólatréð sem mun prýða stofuna og getur fundið einstakar gjafir fyrir hátíðarnar.
- Jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur og ýmsar handgerðar vörur úr skóginum
- Handverksmarkaður – Sérstök áhersla er lögð á einstakt handverk unnið úr náttúrlegum efnum sem og innlend matargerð og snyrtivörur
- Kaffistofa Skógræktarfélags Reykjavíkur
- Menningar- og skemmtidagskrá fyrir börn og fullorðna
Skógræktarfélag Reykjavíkur selur að sjálfsögðu íslensk jólatré af ýmsum gerðum, en fyrir hvert keypt tré eru 50 gróðursett. Auk þess verða mismunandi vörur úr skóginum í boði fyrir áhugasama.
Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur utan um handverksmarkað þar sem sérstök áhersla er lögð á einstakt handverk, unnið úr náttúrlegum efnum og innlendri matargerð og snyrtivörum.
Félagið rekur notalega kaffistofu þar sem lagt er upp úr því að verðlag sé hagstætt þannig að flest allir ættu að hafa ráð á að fá sér kakó eða kaffisopa og með því.
Viðamikil menningardagskrá er allar helgar, bæði fyrir börn og fullorðna. Rithöfundar koma og lesa upp úr nýútgefnum bókum og tónlistarmenn úr ýmsum áttum spila ljúfa tóna á kaffistofunni. Upplestur barnabóka verður við varðeld í útikennslustofu Skógræktarfélagsins sem nefnist Rjóðrið. Jólasveinar heilsa upp á börnin, fara í leiki og syngja. Harmonikkuleikarar og kórar troða upp á markaðsplani svo fátt eitt sé nefnt.
Nánar um Handverksmarkaðinn
Jólamarkaðurinn er opin allar aðventuhelgar frá klukkan 12:00-17:00.
Aðventuhelgarnar 2017:
25.-26. nóvember
02.-03. desember
09.-10. desember
16.-17. desember
Verð fyrir bása/borð eða jólakofa
5.000 kr. einn dagur
8.000 kr. ein helgi
25.000 kr. fyrir allar fjórar aðventuhelgarnar.
Jólamarkaðurinn opnar klukkan 12:00 – 17:00 alla laugardaga og sunnudaga í aðventunni.
Mælt er með að sölufólk mæti a.m.k. 30 mínútum fyrir opnunar tíma til að gera básana klára.
Uppsetning bása er annað hvort á föstudeginum fyrir hverja helgi eða rétt fyrir opnun.
Starfsmenn mæta til vinnu klukkan 11:00.
Aðstaða fyrir sölufólk:
Jólahús á plani er þrjú og í hverjum er pláss fyrir einn til tvo bása. Húsin mynda smá torg á planinu.
Við verðum með 1-2 gashitara í hverju húsi.
Salirnir eru tveir, eldri og nýrri, og eru þeir samliggjandi en gengið er niður stiga í eldri salinn. Samanlagt eru 15-16 borð í sölunum. Borð (150×80 cm) og stólar og aðgangur að rafmangi er á staðnum. Húsið er upphitað en það er gamalt og hurðin er mikið að opnast þannig að búast má við að salurinn verði ansi svalur.
Salir og útisvæði eru skreytt og jólaljósalýst.
Upplýsingar um markaðinn og bókanir eru að fá á netfanginu [email protected]
Sara Riel heldur utan um markaðinn í ár og mun svara tölvupóstum og verða viðtaltímar á mánudögum og föstudögum frá klukka 09:30-15:30 á Elliðarvatnsbænum í Heiðmörk.
Umsóknarfrestur rennur út 1. nóvember 2017
Athugið að staðsetning í sal eða jólahúsi er ekki fest við pöntun. Svör við umsóknum/pöntunum verður í síðasta lagi svarað og staðfest 1.nóvember. Vegna mikillar ásóknar verður valið inn á markaðinn og er það gert til að bæta gæði, úrval og fjölbreytni á vöruúrvali. Við pöntun takið fram nafn, kennitölu, símanúmer og hvaða vörur þið ætlið að selja og ef völ er á sendið myndir – það bætir möguleikana til muna.
Markaðssetning og kynning
Skógræktarfélagið mun sjá um að kynna jólamarkaðinn með ýmsum hætti, s.s. útvarps-, skjá- og blaðaauglýsingum, og að laða að gesti með skemmti- og menningardagskrá.
Borða- og jólakofaplan
Smellið á mynd til að stækka