Fréttir

Hvílíkir eru þessir tímar…..

heimas__aaf_11_003

Skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Reykjavíkur

á aðalfundi félagsins  13. apríl á Háskólatorgi

Ágætu félagsmenn og aðrir góðir gestir.

„Hvílíkir eru þessir tímar, þegar gengur næst glæpi að tala um tré…“  Iðulega  hafa mér að undanförnu  dottið í hug þessar línur úr kvæði Bertolts Brechts, þegar ég hef rennt augum yfir fréttir eða lagt mig eftir umræðu um skógræktarmál og náttúruvernd . *

Borgarstjórinn í Reykjavík vill efla her gegn þeim fáu öspum sem gróðursettar hafa verið við götur  borgarinnar og nefnd umhverfisráðherra leggur til að senda megi fógeta inná sumareit minn og margra fleiri, sem álpuðust til að gróðursetja þar „óæskilegar” plöntur og tré  í þeirri staðföstu trú  að verið væri að fegra, bæta og auðga íslenska náttúru.  Nú er mér, og þeim sem kunna að vera í sama báti og ég, borið á brýn að hafa að öllum líkindum borið meinshugi til íslenskrar náttúru. Það má því segja um aula eins og mig;  það sem helst hann varast vann, varð að koma yfir hann.

Að sjálfsögðu veldur það tilfinningaróti þegar kynnt eru frumvarpsdrög sem virðast hafa það að markmiði að hreinsa á róttækan hátt til í þeirri flóru sem nú þrífst á Íslandi og útrýma gróðri sem löngu er orðinn hagvanur hérlendis og landsmenn tekið ástfóstri við. Þegar nefnd valinkunnra vísinda- og fræðimanna leggur fram svo djúptækar tillögur, hlýtur það að vekja upp hörð viðbrögð.

Þar með er ekki sagt að ekki kunni að vera þörf á að rannsaka vandlega og bregðast við útbreiðslu ágengra, framandi plantna, sem valda kunna  mikilli gróðurröskun hér á landi.  Hvergi hef ég þó séð lista yfir slíkar plöntur, þannig að ég geti áttað mig betur á vandanum.

Á meðan ríkir áreitin óvissa.

Í litlum brothættum samfélögum hefur það til þessa talið gefast vel, að hafa samráð við þá sem hlut eiga að máli, þegar gera á viðamiklar breytingar á sviðum sem skipta marga miklu.

Það var því miður ekki gert í þetta sinn, þegar tillögur voru gerðar  að breytingum á náttúruverndarlögum .  Við fengum þó að senda inn athugasemdir.  Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð umhverfisráðuneytinu uppá  umræðufund í janúar s.l. til að ræða opinskátt um þessar  tillögur. Það þótti ekki tímabært þá.

Við buðum ráðherranum aftur að koma á þennan aðalfund til að ræða  þessi mál við okkur,en það þótti heldur ekki tímabært. En við vildum fá umræður um vandann, sem talinn er steðja að íslenskri náttúru og fá að leggja orð í belg.  Það fáum við ekki. Gera verður ráð fyrir því að lagafrumvarp verði lagt fram án frekara samráðs við skógræktarfólk,   þar sem gera má ráð fyrir að kvaðir verði lagðar á störf  þess. Það er miður, því við viljum gjarnan ræða þessi mál opinskátt og velta þar upp öllum steinum, því þetta snertir allan almenning ekki síður en sérfræðinga.

Þessi mótbyr fríar skógræktarfólk ekki frá þeirri skyldu, að horfa í eigin barm. Við verðum að umgangast landið af mikilli varfærni  og nærgætni. Þess hefur gætt að skógræktarfólk hefur látið eyða votlendi til að auðvelda skógrækt. Það er neikvæð náttúruvernd og á ekki að eiga sér stað. Enn í dag verðlaunar ríkið bændur  með fúlgum fjár fyrir náttúruspjöll  í formi framræslu  á mýrum um leið og það þykist vernda votlendi með hinni hendinni.

Votlendi  er ein  mikilvægasta náttúruauðlind landsins, sem við verðum að taka þátt í að vernda. Þetta er lífseigasta gróðursvæðið og bindiefni gljúps jarðvegs.  Plöntur og jurtir sem við notum við gróðursetningu eða við jarðvegbætur eiga að auðga ekki  einhæfa.

Á síðasta aðalfundi okkar var samþykkt ályktun um að vinna að   því að gera Heiðmörk að formlegu  verndar- og útivistarsvæði, annað hvort með sérstökum lögum eða sem Fólkvang. Við höfum kynnt landeigendunum þremur sjónarmið okkar og rætt leiðir  að þessu marki. Undirtektir hafa ekki verið slæmar, en engin niðurstaða liggur enn fyrir. Mikilvægi málsins hefur þó síst minnkað, því með vaxandi fjárhagsvanda Orkuveitu Reykjavíkur, sem er þriðjungs eigandi að Heiðmörk, vex þörfin á því að Heiðmörkinni verði mörkuð varanleg stjórnskipuleg staða, óháð fjárþörf  landeiganda eða duttlungum fasteignamarkaðsins hverju sinni. Það er í reynd með ólíkindum að ekki hafi verið gengið frá stjórnskipulegri stöðu Heiðmerkur fyrir löngu, því á meðan  er óvissan um framtíð hennar til staðar.

Samkomulag borgarinnar og Skógræktarfélagsins um rekstur Heiðmerkur hefur verið  í uppnámi lengi. Við höfum greitt með rekstri  Heiðmerkur úr eigin sjóðum til fjölda ára. Síðan ég tók við formennsku í félaginu hef ég reynt að ná sanngjarnri niðurstöðu  um málið við sex borgarstjóra úr ýmsum flokkum. Öllum hefur þeim verið það sameiginlegt að taka vel í málið, en enginn hefur sýnt af sér það rögg að höggva á hnútinn og semja. Það virðist ekki vera styrkur Íslendinga að geta samið um þessar mundir.

Nú blasir það við nýrri stjórn að ákveða með hvaða hætti starfi okkar í Heiðmörk verður fram haldið. Það  okkar getur varla komið neinum á óvart, þótt við takmörkum  þjónustu þar við það fjárframlag sem landeigendur leggja að mörkum. Ef þeir hætta að borga – þá er umsýslu okkar í Heiðmörk sjálfhætt.  Skyldu borgaryfirvöld vilja loka Heiðmörk um nætur eða láta greiða fyrir komur þangað ?

Kanski þetta áhugaleysi borgaryfirvalda endurspegli eitthvert sinnuleysi  borgarbúa sjálfra fyrir velferð Heiðmerkur ? Hún er ef til vill  svo sjálfsögð í þeirra augum, að óþarfi kann að virðast að gefa henni gaum eða hafa af henni áhyggjur. Það er rangt mat.

Heimsóknartölur þangað bera þess þess vitni að fjöldinn fer þangað. Við bíðum spennt eftir að rannsóknin  á verðmæti Heiðmerkur sjái dagsins ljós. Við munum vissulega nýta okkur þær upplýsingar sem þar koma fram.

Við eigum annars konar Heiðmörk austur undir Klofningum undan Mýrdalsjökli, sem gefið var nafnið Fellsmörk.  Þetta er land fjögurra býla sem ríkið tók eignarnámi á níunda áratugi síðustu aldar, til að geta haft betri stjórn á tveimur fljótum, sem afmarka mörkina – Klifanda að vestan en Hafursá að sunnan og austan. Til að bægja fljótunum  frá þjóðveginum um Suðurland var þeim beint á köflum uppí landið, þar sem þau hafa farið hamförum, brotið land og eytt vegum.

Skógræktarfélagið gerði  samkomulag við ríkið  árið 1988 til fimmtíu ára, um að það fengi landið til leigu, með heimild til að endurleigja spildur  til landnema.  Á ýmsu hefur gengið með umsýslu og uppbyggingu þarna.  Þar skipta akfærir vegir megin máli, auk áhuga landnemanna sjálfra.  Nú er ástandið þannig að  vegir eru í miklum ólestri eftir mikil flóð og erfitt eða ógerlegt fyrir suma landnema  að komast til landspildna sinna.  Við það geta þeir ekki unað til lengdar.

Til að koma þessu í lag þarf að finna varanlegt vegstæði og leggja nýja vegi, sem kosta munu mikla fjármuni. Skógræktarfélagið sem leiguliði hefur farið fram á að landeigandinn ríkið  eða undirstofnanir þess komi að þessu verki, því akfærir vegir voru þarna þegar upphaflegur samningur var gerður. Ríkið hefur því að okkar mati skyldum að gegna þarna.  Allar umleitanir um aðkomu þess hafa þó verið árangurslausar og öllum vandanum ýtt til okkar.

Við höfum boðist til að kaupa landið  af ríkinu,  til að koma álitamálum á hreint og með því, létta undir með því, enda er núverandi fyrirkomulag óframkvæmanlegt og í andstöðu við nýleg lög um frístundabyggðir. Árangur alls þessa er enginn.

Landbúnaðarráðherra vill greinilega halda þeim möguleika opnum að búskapur verði hafinn að nýju á grýttum brekkunum undir Klofningum, á jörðunum sem ríkið tók eignarnámi og lagði undirlendi þeirra undir beljandi jökulfljót.  Það væri eftir öðru.

En ríkið á þetta og auðveldasta leið ráðherra er að standa á sínu og segja nei. Það reynir greinilega á þolrifin hjá okkur Íslendingum að semja.  Já- hvílíkir eru þessir tímar…

Á síðasta ári tókst  loks að klára að fullnusta samning okkur við Reykjavíkurborg frá árinu 2000 um kaup borgarinnar á Fossvogsstöðinni. Við fengum nú úthlutað liðlega 3000 fermetra  lóð við Suðurlandsbraut, sem við getum nýtt eða selt. Var það mikið fagnaðarefni.

Þá  gekk Hæstaréttardómur í máli okkar gegn Kópavogsbæ okkur í vil. Niðurstaða hans gæti orðið fordæmisgefandi fyrir önnur skógræktarfélög, en okkur var dæmdur fullur og ótakmarkaður nýtingarréttur á trjánum og afurðum þeirra svo og skaðabætur að mati dómkvaddra manna .

Þetta var ekki eignarréttarmál um trjágróðurinn sem slíkan. Það er enn óútkljáð og verður ekki útkljáð nema milli landeigenda og skógræktarfélagsins.  Ég hallast að því að tímabært sé að fá úr því skorið, hver sé formlegur  eigandi trjánna í Heiðmörk. Kannski kemur að því fyrr en seinna.  Það veldur alltaf óvissu og óþarfa árekstrum ef tveir telja sig eiga sama hlutinn.

Já – góðir félagsmenn, það getur gengið næst glæp að tala um tré.

Það hefur reynst afar þungt undir fæti að ná eyrum landeigenda, hvort heldur það sé í Heiðmörk eða Fellsmörk. Þá hefur Orkuveitan þrengt kosti okkar með því að segja okkur upp þjónustusamnningi um vörslu  eigna hennar í Heiðmörk,  en hluti samningsins  er um not okkar  á Elliðavatnsbænum, sem við höfum haft til afnota frá 1963. Orkuveita mun ætla sér að selja bæjarhúsin á lögbýlinu Elliðavatn. Þeir virðast gleyma því að Skógræktarfélagið hefur lagt til bæjarins fé í gegnum árin og á því hlut í húsunum.

Ef  bæjarhúsin verða seld utanað komandi aðila, þá er Heiðmörkin ekki lengur óskorað Friðland reykvísks almennings, heldur verður stofnað á Elliðavatni leiksvæði einkaaðila  innan Heiðmerkurlandsins.

Það ber okkur með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir. Heiðmörk ,eða hlutar hennar, mega aldrei lenda í höndum einkaaðila !

Að lokum vil eg nota tækifærið og þakka Kristjönu Bergsdóttur fyrir störf í þágu félagsins, en hún hverfur nú úr stjórn eftir margra ára farsælt starf þar. Hún hefur ætíð  verið einörð í skógræktaráhuga sínum og lagt margt gagnlegt til mála í stjórn. Vandlega höfum við hlustað á orðræður  hennar í stjórn félagsins. Við óskum henni alls góða.  Við munum sakna hennar.

Ég vil óska öllu reykvísku skógræktarfólki og félögum í Skógræktarfélagi Reykjavíkur  góðrar veðráttu í  vor og sumar og farsæls skógræktarstarfs.

Starfsfólki félagsins með framkvæmdastjórann Helga Gíslason í broddi fylkingar, þakka ég vel unnin störf oft við erfiðar aðstæður.

Félögum mínum í stjórn þakka ég einnig farsælt samstarf.

Þakka gott hljóð.

Þröstur Ólafsson, formaður stjórnar.

 

* Úr kvæðinu Til hinna óbornu eftir Bertolt Brecht. Þýð. Sigfús Daðason.

Sannarlega lifi ég á myrkum tímum!

Hið græskulega orð er fávíslegt.  Slétt enni
ber vitni um sljóleik tilfinninganna.  Sá sem hlær
á aðeins enn óheyrða
hina hræðilegur frétt.
Hvílíkir eru þessir tímar, þegar
gengur næst glæpi að tala um tré.
Því það boðar þögn um svo margar ódáðir.
Sá sem gengur þarna rólegur yfir götuna
er víst ekki lengur tiltækur vinum sínum
sem í nauðum eru staddir.
……………