Fréttir

Hverfistré Reykjavíkur

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur útnefnt Hverfistré Reykjavíkur í öllum tíu hverfum borgarinnar. Yfir 80 tilnefningar bárust frá íbúum, félagsmönnum og áhugafólki. Jafnframt fengu nokkur sérstæð og glæsileg tré sérstakar viðurkenningar.

Hverfistrén og þau tré sem fengu sérstakar viðurkenningar má sjá hér að neðan, eftir hverfum.

Með verkefninu er vakin athygli á mikilvægi trjágróðurs í borgum og þeim gríðarlegu verðmætum sem í honum felast. Rannsóknir hafa sýnt fram á bein og mælanleg tengsl milli trjágróðurs í borgum og betri heilsu. Þá skapa tré skjól, draga úr mengun og hávaða, eru búsvæði fugla og skordýra og gera umhverfið fallegra og skemmtilegra.

HVERFISTRÉ ÁRBÆJAR er trjálundur í Árbæjarlaug. Lundurinn fegrar umhverfið, rammar inn svæðið og eykur ánægju sundgesta, sem eru ófáir. Þá lét fólk þess getið hve hlýlegt er að hafa sígrænan gróður, einkum að vetrarlagi. Lóðin við Árbæjarlaug var hönnuð samhliða hönnun og byggingu laugarinnar sem var opnuð árið 1994. Suðurhluti lóðarinnar nær að hluta inn í gamalt sumarbústaðaland sem þá þegar var skógi vaxið. Það er hái og þétti trjálundurinn sem er sunnan við laugina.
HVERFISTRÉ BREIÐHOLTS er ilmreynir (Sorbus aucuparia) við Vesturberg 29. Reynirinn var gróðursettur árið 1976, skömmu eftir flutt var inn í nýbyggt íbúðarhúsið. Síðan þá hefur reynirinn vaxið og dafnað. Tréð er vel staðsett í garði við hlið göngustígs.
Sérstaka viðurkenningu fær grenitrjálundur á lóðamörkum Erluhóla og Depluhóla. Lundurinn er hár, þéttur og með miklu fuglalífi. Hann veitir gott skjól fyrir norðanáttinni og loks er hann mjög fallegur, bæði á sumrin og veturna, eins og meðfylgjandi myndir sýna.
HVERFISTRÉ GRAFARHOLTS-ÚLFARSÁRDALS er garðahlynur (Acer pseudoplatanus) við Ólafsgeisla 17. Hlynurinn er afar fallegur og þrífst vel. Hann er á fallegum stað, sést langt að og eins og horfir yfir skóglendið og Grafarholtsvöll fyrir neðan. Tréð var gróðursett árið 2004, þegar það hafði náð um 1,5 metra hæð. Það hefur gott rými til að vaxa og hefur fengið ágæta umhirðu. Hlynurinn hefur verið snyrtur reglulega til að stýra vexti og þolir það greinilega ágætlega. Það hve vel þessum hlyn líður í hlíðum Grafarholtsins, gefur góð fyrirheit fyrir vöxt trjágróðurs í þessu unga hverfi á næstu árum og áratugum.
HVERFISTRÉ GRAFARVOGS er garðahlynur (Acer pseudoplatanus) við Reykjafold 12. Hlynurinn er ekki nema 37 ára en hefur nýtt tímann vel. Tréð er þegar orðið hið glæsilegasta, þótt það sé barn að aldri á mælikvarða garðahlyna sem verða 500 ára. Tréð sést vel frá göngustíg í hverfinu og greinilegt að það hefur heillað vegfarendur, enda bárust nokkrar tilnefningar á því til félagsins.
HVERFISTRÉ HÁALEITIS-BÚSTAÐA er evrópulerki (Larix decidua) við Grundargerði 19. Í Háaleitis- og Bústaðahverfi er mikið um glæsilegt tré — seljur, reynitré, hlyni og svo mætti lengi telja. Valnefnd félagsins var því nokkur vandi á höndum, eins og gildir reyndar um fleiri hverfi. Evrópulerkið er hávaxið, kræklótt og bogið en jafnfram hið glæsilegasta með sterkan karakter sem setur skemmtilegan svip á götuna.
Apahrellir við Grundargerðisgarð fær sérstaka viðurkenningu. Apahrellir (Araucaria auracana) er sígrænt barrtré, ættað frá Síle. Tréð er afar sérstakt, með óhefðbundin lauf, leðurkennt og hvasst; og börk sem myndar sérkennileg rúmfræðileg mynstur. Apahrellirinn við Grundargerðisgarð var gróðursettur árið 1985. Hann er um fjórir metrar á hæð og líklega fremstur meðal jafningja hér á Íslandi. Sumar nálar trésins hafa roðnað en ekki er að undra að tréð erfiði eitthvað í órafjarlægð frá upphaflegum heimkynnum sínum við allt aðrar veðurfarsaðstæður.
Eik Háagerði 11 fær sérstaka viðurkenningu. Eikin, sem líklega er sumareik (Quercus robur), var gróðursett árið 1982. Hún hafði þá dvalið í kjallara hússins í um áratug og er því um hálfrar aldar gömul. Akarnið er úr skógi við Växjö, í sænsku Smálöndunum. Eikin nálgast nú 9 metrar hæð og kann að vera hæsta tré sinnar tegundar á Íslandi.
Fagurlind (Tilia Platyphyllos), Hvassaleiti 141 fær sérstaka viðurkenningu. Tréð óx upp af fræi frá Neðra Saxlandi, sem var sáð beint í garð í Hvassaleiti, árið 1987. Ekki var fylgst sérstaklega með afdrifum fræsins eða uppvexti trésins fyrstu árin. En eftir um tvo áratugi, fannst einkennileg jurt í garðinum, sem var flutt í gróðurhús dafnaði hún þar í tvö ár. Lindin var svo gróðursett á núverandi stað um aldamótin, og var þá um hálfur annar metri á hæð. Nú er tréð rúmlega sex metra hátt og skartar sérlega stórum laufum á sumrin.
HVERFISTRÉ HLÍÐA er garðahlynur (Acer pseudoplatanus), Reykjahlíð 8. Margar ábendingar bárust um hlyninn enda er þetta glæsilega tré staðsett við göngustíg að leikskólanum Hlíð, svo að margt fólk nýtur þess þegar það á leið hjá. Tréð er stórt með voldugan stofn og íburðarmikla krónu. Hlynurinn er með nægt pláss í kringum sig og fær því að njóta sín að fullu. Íbúar lýsa trénu sem „prýði hverfisins“ og oft heyrist til borgarbúa og ferðamanna stoppa og dást að því hvað hlynurinn er fallegur.
HVERFISTRÉ KJALARNESS er gullregn (Laburnum x watereri) við Esjugrund 34. Gullregnið er fallegt og hefur blómstrað fallega í sumar, líkt og gullregn víðar í borginni eftir góðviðrasumarið 2023. Tréð hefur notið alúðar í uppeldinu og er vel haldið í einkagarði. Jafnframt sést það vel frá göngustíg í miðju Grundarhverfi og því margir sem geta notið þess.
HVERFISTRÉ LAUGARDALS er gullregn (Laburnum x watereri) í garði Ásmundarsafns. Eins og segir í tilnefningu er tréð „afar fagurt og myndar stórfenglega hvelfingu yfir útilistaverkum í garði safnsins sem er öllum opinn.“ Gullregn eru falleg úr fjarlægð en ekki síður þegar nær er komið enda geta greinarnar myndað fallega hvelfingu líkt og í Ásmundarsafni.
Sérstaka viðurkenningu fær ösp á hringtorgi við Skeiðarvog. Öspin er glæsileg, umkringd fjölbreyttum gróðri, á stað sem umhverfið og vegfarendur þurfa svo sannarlega á slíku að halda. Eða eins og Ebba Margrét Magnúsdóttir, sem tilnefndi tréð, lýsti því: „ Þetta fallega tré á umferðareyju er tákn um græna Reykjavík sem gleður stressaða ökumenn sem eiga þar leið um. Oft mikil traffík þarna og þá er gott að geta núllstillt sig og virt fyrir sig gróðurinn sem gleður og gefur orku í að komast inná hringtorgið. Á vorin er yndislegt að sjá litríka túlípana springa út. Eitthvað sem mætti bæta á fleiri umferðareyjum.“ Mynd: Já.is.
HVERFISTRÉ MIÐBORGAR eru gráelritré (Alnus incana) á Austurvelli sem voru gróðursett 1963. Falleg einstofna tré með fallegum krónum. Vaxtarlagið á tegundinni getur verið misjafnt – runni, margstofna tré eða einstofna tré með krónu. Trén njóta sín vel með öðrum fjölbreyttum gróðri og umvefja Austurvöll einstakri grænni hlýju. Mörg falleg tré eru í hverfinu — birki, silfurreynar, hrossakastaníur, garðahlynir og svo mætti lengi telja. Þá eru í Miðborginni margir almenningsgarðar með fallegum og fjölbreyttum gróðri. Allt frá Alþingisgarðinum, einum fyrsta skrúðgarði landsins (1894) til kirsuberjalundsins sem var gróðursettur í Hljómskálagarðinum árið 2011.
HVERFISTRÉ VESTURBÆJAR er álmur (Ulmus glabra) við Stýrimannastíg 9. Álmurinn er sérlega stór og glæsilegur. Hugsað hefur verið vel um tréð síðustu ár, meðal annars tvö önnur tré sem voru komin til ára sinna verið felld. Ekki er vitað hvenær álmurinn var gróðursettur, en húsið að Stýrimannastíg 9 var reist árið 1906. Til gamans má geta þess að það var í þessum sama garði sem fyrsti körfuvíðirinn var ræktaður upp á Íslandi, um aldamótin 1900. Teinungur úr tágakörfu frá Þýskalandi var gróðursettur í garðinu. Á næstu árum og áratugum fengu borgarbúa svo víðigræðlinga af þessari plöntu sem varð þekkt undir heitinu Vesturbæjarvíðir og er nú að finna víða um land.
Hrossakastanía (Aesculus hippocastanu), Vesturvallagötu 5 fær sérstaka viðurkenningu. Tréð er afar glæsilegur fulltrúi tegundar sem er nokkuð sjaldséð á Íslandi. Þetta tré þrífst vel, blómstrar reglulega og er mögulega stærsta hrossakastanía á Íslandi. Tréð er sagt vera frá því um 1933.
Hlynur á Kvisthaga 4 er eitt besta dæmi um það margvíslega gang og þá miklu gleði sem tré geta fært borgarbúum. Hlynurinn er reisulegur og með fallega greinabyggingu sem hentar afar vel fyrir stað hans og hlutverk. Helga Jónsdóttir, sem bjó á Kvisthaga 4 í aldarfjórðung var svo væn að senda félaginu frásögnina sem fer hér á eftir.

Helga Jónsdóttir, sem bjó á Kvisthaga 4 í aldarfjórðung var svo væn að senda félaginu þessa frásögn:

Þegar ég, maðurinn minn og tvær ungar dætur okkar fluttum á efri hæð Kvisthaga 4 haustið 1996 hafði ég lítið hugsað um garðinn við húsið, hlakkaði reyndar til að eignast loksins garð, en fjölskyldan, flutningarnir og endurbæturnar á íbúðinni gengu fyrir öðru. Ég áttaði mig þó á því að þetta var dálítið formfastur og fínn garður, og ekki vantaði gróðurinn. Þrjú stór tré voru mest áberandi: grenitré sem var orðið býsna hátt og átti eftir að hækka mikið næstu ár, hátt reynitré og, síðast en ekki síst, garðahlynur, tvístofna og með býsna volduga krónu. 

Árið eftir að við fluttum í húsið flutti ný fjölskylda á neðri hæðina með tvo stráka örlítið yngri en dætur okkar, og seinna bættust þar þrjú börn við. Næstu árin var því oft fjör í garðinum og við húseigendurnir ákváðum fljótt að þar skyldu börnin fá að leika sér að vild. Þess vegna vorum við líka öll samþykk því að úða ekki gróður þar með eiturefnum. 

Fljótlega kom í ljós að hlynurinn fagri var eftirlætistré allra í húsinu, en stóru trén þrjú héldu áfram að vaxa og breiða úr sér þannig að ekki leið á löngu þar til þau náðu öll hér um bil saman og skógurinn var farinn að skyggja verulega á húsið og grasflötina. Reynitréð fékk því að fjúka, en stofninum var haldið eftir að hluta svo hægt væri að festa áfram hengirúm milli hans og hlynsins. Grenitréð var höggvið nokkrum árum síðar og birti þá mjög í garðinum og hlynurinn naut sín sem aldrei fyrr. 

Auk þess að prýða garðinn, og reyndar götuna alla, reyndist hlynurinn vera ágætis leik- og þjálfunartæki. Þau á neðri hæðinni hengdu í hann rólu, barnasæti líka, og svo var allt í einu komin bauja, ein eða tvær, sem gaman var að kljást við og sveifla sér á. Hengirúmið var líka mikið notað sem róla, sjaldnar til hvíldar. Svo var þetta fyrirtaks klifurtré. Stundum urðum við foreldrarnir smeykir þegar börnin hættu sér mjög langt upp eftir trénu en aðeins einu sinni varð slys; þegar elsti strákurinn á neðri hæðinni missti tak á einni greininni, sem betur fór þó ekki mjög ofarlega, datt og handleggsbrotnaði. Faðir hans ætlaði að höggva þessa ólánsgrein af en ég bað hann að skilja endilega eftir smástúf. Greinin hentaði mér nefnilega svo vel til að hanga á henni og teygja mig að loknum hlaupum og gönguferðum. Hann varð við þessari bón minni og í nokkur ár hafði ég greinarstúfinn til þessara nota. Svo var það eitthvert þurrt og sólríkt sumar að ég greip um greinina og lyfti fótunum frá jörðinni eins og ég var vön, en skall þá aftur fyrir mig eins og planki væri að falla. Stúfurinn hafði brotnað af og kenndum við um undangengnum þurrkum. Sem betur fór slasaðist ég ekkert við þetta. 

Hlynurinn hækkaði smám saman með árunum en greinilegt var að stofninn hækkaði ekki þessi ár. Þetta sannaðist til dæmis af því að greinin örlagaríka var alltaf í sömu hæð ár eftir ár og sömuleiðis var vikið þar sem stofnarnir tveir skiptust alltaf í sömu hæð, og þægilegri fyrir mig og fleiri við t.d. fótateygjur. Hækkunin á trénu fór sem sé öll fram í krónunni. Við gátum fylgst vel með því frá árinu 2008, þegar risið hjá okkur var hækkað og við fengum nýjar svalir þar. Fyrst eftir hækkunina sáum við vel út á sjóinn yfir handriðið sitjandi á svölunum en eftir örfá ár hafði krónan hækkað það mikið að standa varð upp til að njóta sama útsýnis. Við létum aldrei skerða tréð að ofan en fjarlægðum kannski eina og eina grein eða styttum til hliðanna. Einu sinni reið yfir vond haustlægð áður en laufið hafði fallið af og þá brotnaði stór grein undan vatnsþunganum. Við söguðum hana burt og trénu varð hvorki meint af né bar neitt á þessari skerðingu.  

Það var gaman að fylgjast með breytingum hlynsins eftir árstíðum og veðri. Kannski var hann fallegastur á vorin, rétt áður en brumin sprungu út. Þá sló á þau rauðgulum lit sem gerði þetta stóra tré dásamlega fallegt á að líta. Eða var hann kannski fallegastur með fullu laufskrúði, ekki síst þegar birti til eftir rigningu og greinarnar voru enn dökkar af vætu, næstum svartar, og mynduðu andstæðu við fagurgrænt laufskrúðið sem sólargeislarnir léku sér í? Það var erfitt að gera þarna upp á milli. Þegar haustaði varð laufið gult, en lægðagangur með særoki og kannski nart blaðlúsanna sem höfðu sótt mjög í tréð þegar leið á sumarið ollu því að blöðin voru mörg hver blettótt og götótt. Ekki þarf svo að orðlengja það að eftir snjókomu í logni að vetri varð hlynurinn ægifagur á að líta. 

Dálitlar nytjar höfðum við af trénu auk þess sem áður er rakið. Við mæðgurnar gættum þess flest sumur að tína nokkur blöð þegar gróskan sem var mest og þurrka þau og pressa. Svo notuðum við þau til að skreyta jólaborðið eftir að hafa úðað þau með gylltum, hvítum eða rauðum lit. 

Þegar við fjölskyldan fluttum burt frá Kvisthaga árið 2022 var hlynurinn fagri eitt af því sem ég saknaði mest þaðan. En það er góð tilhugsun að þetta fegursta tré götunnar, kannski Vesturbæjar alls, á eftir að veita þeim sem þar búa ánægju um ókomin ár.