Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur útnefnt Hverfistré Reykjavíkur í öllum tíu hverfum borgarinnar. Yfir 80 tilnefningar bárust frá íbúum, félagsmönnum og áhugafólki. Jafnframt fengu nokkur sérstæð og glæsileg tré sérstakar viðurkenningar.
Hverfistrén og þau tré sem fengu sérstakar viðurkenningar má sjá hér að neðan, eftir hverfum.
Með verkefninu er vakin athygli á mikilvægi trjágróðurs í borgum og þeim gríðarlegu verðmætum sem í honum felast. Rannsóknir hafa sýnt fram á bein og mælanleg tengsl milli trjágróðurs í borgum og betri heilsu. Þá skapa tré skjól, draga úr mengun og hávaða, eru búsvæði fugla og skordýra og gera umhverfið fallegra og skemmtilegra.
Helga Jónsdóttir, sem bjó á Kvisthaga 4 í aldarfjórðung var svo væn að senda félaginu þessa frásögn:
Þegar ég, maðurinn minn og tvær ungar dætur okkar fluttum á efri hæð Kvisthaga 4 haustið 1996 hafði ég lítið hugsað um garðinn við húsið, hlakkaði reyndar til að eignast loksins garð, en fjölskyldan, flutningarnir og endurbæturnar á íbúðinni gengu fyrir öðru. Ég áttaði mig þó á því að þetta var dálítið formfastur og fínn garður, og ekki vantaði gróðurinn. Þrjú stór tré voru mest áberandi: grenitré sem var orðið býsna hátt og átti eftir að hækka mikið næstu ár, hátt reynitré og, síðast en ekki síst, garðahlynur, tvístofna og með býsna volduga krónu.
Árið eftir að við fluttum í húsið flutti ný fjölskylda á neðri hæðina með tvo stráka örlítið yngri en dætur okkar, og seinna bættust þar þrjú börn við. Næstu árin var því oft fjör í garðinum og við húseigendurnir ákváðum fljótt að þar skyldu börnin fá að leika sér að vild. Þess vegna vorum við líka öll samþykk því að úða ekki gróður þar með eiturefnum.
Fljótlega kom í ljós að hlynurinn fagri var eftirlætistré allra í húsinu, en stóru trén þrjú héldu áfram að vaxa og breiða úr sér þannig að ekki leið á löngu þar til þau náðu öll hér um bil saman og skógurinn var farinn að skyggja verulega á húsið og grasflötina. Reynitréð fékk því að fjúka, en stofninum var haldið eftir að hluta svo hægt væri að festa áfram hengirúm milli hans og hlynsins. Grenitréð var höggvið nokkrum árum síðar og birti þá mjög í garðinum og hlynurinn naut sín sem aldrei fyrr.
Auk þess að prýða garðinn, og reyndar götuna alla, reyndist hlynurinn vera ágætis leik- og þjálfunartæki. Þau á neðri hæðinni hengdu í hann rólu, barnasæti líka, og svo var allt í einu komin bauja, ein eða tvær, sem gaman var að kljást við og sveifla sér á. Hengirúmið var líka mikið notað sem róla, sjaldnar til hvíldar. Svo var þetta fyrirtaks klifurtré. Stundum urðum við foreldrarnir smeykir þegar börnin hættu sér mjög langt upp eftir trénu en aðeins einu sinni varð slys; þegar elsti strákurinn á neðri hæðinni missti tak á einni greininni, sem betur fór þó ekki mjög ofarlega, datt og handleggsbrotnaði. Faðir hans ætlaði að höggva þessa ólánsgrein af en ég bað hann að skilja endilega eftir smástúf. Greinin hentaði mér nefnilega svo vel til að hanga á henni og teygja mig að loknum hlaupum og gönguferðum. Hann varð við þessari bón minni og í nokkur ár hafði ég greinarstúfinn til þessara nota. Svo var það eitthvert þurrt og sólríkt sumar að ég greip um greinina og lyfti fótunum frá jörðinni eins og ég var vön, en skall þá aftur fyrir mig eins og planki væri að falla. Stúfurinn hafði brotnað af og kenndum við um undangengnum þurrkum. Sem betur fór slasaðist ég ekkert við þetta.
Hlynurinn hækkaði smám saman með árunum en greinilegt var að stofninn hækkaði ekki þessi ár. Þetta sannaðist til dæmis af því að greinin örlagaríka var alltaf í sömu hæð ár eftir ár og sömuleiðis var vikið þar sem stofnarnir tveir skiptust alltaf í sömu hæð, og þægilegri fyrir mig og fleiri við t.d. fótateygjur. Hækkunin á trénu fór sem sé öll fram í krónunni. Við gátum fylgst vel með því frá árinu 2008, þegar risið hjá okkur var hækkað og við fengum nýjar svalir þar. Fyrst eftir hækkunina sáum við vel út á sjóinn yfir handriðið sitjandi á svölunum en eftir örfá ár hafði krónan hækkað það mikið að standa varð upp til að njóta sama útsýnis. Við létum aldrei skerða tréð að ofan en fjarlægðum kannski eina og eina grein eða styttum til hliðanna. Einu sinni reið yfir vond haustlægð áður en laufið hafði fallið af og þá brotnaði stór grein undan vatnsþunganum. Við söguðum hana burt og trénu varð hvorki meint af né bar neitt á þessari skerðingu.
Það var gaman að fylgjast með breytingum hlynsins eftir árstíðum og veðri. Kannski var hann fallegastur á vorin, rétt áður en brumin sprungu út. Þá sló á þau rauðgulum lit sem gerði þetta stóra tré dásamlega fallegt á að líta. Eða var hann kannski fallegastur með fullu laufskrúði, ekki síst þegar birti til eftir rigningu og greinarnar voru enn dökkar af vætu, næstum svartar, og mynduðu andstæðu við fagurgrænt laufskrúðið sem sólargeislarnir léku sér í? Það var erfitt að gera þarna upp á milli. Þegar haustaði varð laufið gult, en lægðagangur með særoki og kannski nart blaðlúsanna sem höfðu sótt mjög í tréð þegar leið á sumarið ollu því að blöðin voru mörg hver blettótt og götótt. Ekki þarf svo að orðlengja það að eftir snjókomu í logni að vetri varð hlynurinn ægifagur á að líta.
Dálitlar nytjar höfðum við af trénu auk þess sem áður er rakið. Við mæðgurnar gættum þess flest sumur að tína nokkur blöð þegar gróskan sem var mest og þurrka þau og pressa. Svo notuðum við þau til að skreyta jólaborðið eftir að hafa úðað þau með gylltum, hvítum eða rauðum lit.
Þegar við fjölskyldan fluttum burt frá Kvisthaga árið 2022 var hlynurinn fagri eitt af því sem ég saknaði mest þaðan. En það er góð tilhugsun að þetta fegursta tré götunnar, kannski Vesturbæjar alls, á eftir að veita þeim sem þar búa ánægju um ókomin ár.