Birki úr Bæjarstaðaskógi, skógarfura frá Þrándheimi, sitkagreni frá Alaska og Síberíulerki – trjáplöntur af þessum fjórum tegundum voru gróðursettar í Heiðmörk 1951. Það ár voru hátt í 90 þúsund plöntur gróðursettar.
Skógræktarfélag Reykjavíkur og hópar landnema í Heiðmörk hafa síðan þá gróðursett tugþúsundir plantna á ári hverju. Þótt erfitt sé að meta heildarfjöldann, er sennilegt að sex til sjö milljónir trjáa og runna hafi verið gróðursettar í Heiðmörk. Talið er að tegundirnar séu um 100 (+/- 20).
Sum þessara trjáa hafa því miður drepist. Önnur hafa dafnað, framleitt fræ og sáð sér út. Auk þess hefur lengi verið villt birkikjarr í Heiðmörk, þótt það hafi verið nokkuð illa farið áður en svæðið var friðað árið 1949. Heildarfjöldi trjáa í Heiðmörk er því nokkru meiri, þótt sum séu þau harla lítil. Samkvæmt útreikningum Gústafs Jarls Viðarssonar skógfræðings, má áætla að í Heiðmörk sé ellefu og hálf milljón trjáa.
Samkvæmt útreikningum Gústafs er nú náttúrulegt birki á rétt ríflega 1.000 hekturum í Heiðmörk. Barrskógar og blandskógar eru á tæplega 1.000 hekturum til viðbótar. Heiðmörk er um 3.200 hektarar og er annað landvæði til að mynda vötn, gróðursnauðir melar, örfoka land, hraun, graslendi og lúpínubreiður.
Sumar trjátegundir hafa reynst betur en aðrar og endurspeglast sú reynsla í vali á nýjum plöntum til gróðursetningar. Árið 2018 var þannig mest áhersla lögð á stafafuru, birki og sitkagreni. En auk þeirra var fjöldi annarra tegunda gróðursettur, svo sem blágreni, gulvíðir, alaskaösp, reyniviður, hrymur, bergfura og gráelri.
Skógræktarfélagið leitast við að auka enn fjölbreytileika gróðurs í Heiðmörk og eru reglulega gerðar tilraunir með ræktun nýrra trjátegunda og runna.