Skógarfróðleikur

Hrýfi — hvernig skógurinn skýlir borginni

Veðurviðvörunum í ýmsum litum hefur rignt yfir landsmenn undanfarna mánuði. Fólki er bent á að tryggja muni utandyra, varað við því að það sé ekkert ferðaveður. Og svo framvegis. Staðan gæti þó verið mun verri. Sérstaklega kannski á höfuðborgarsvæðinu. Ef ekki væri fyrir sívaxandi skóglendi í borginni og umhverfis hana. Skóglendið eykur nefnilega hrýfi, dregur úr roki og skapar skjól.

Vindaspá fyrir höfuðborgarsvæðið þriðjudagsmorguninn 7. febrúar, sýnir vel hrýfi trjáa og bygginga á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars skóglendisins umhverfis borgina — í Heiðmörk og á Hólmsheiði. Appelsínugul viðvörun er í gildi vegna hvassviðris. En yfir höfuðborgarsvæðinu er grænn blettur.

Vindspá fyrir þriðjudaginn 7. febrúar, kl. 7:00. Litli, græni bletturinn fyrir miðja mynd er við höfuðborgarsvæðið. Myndin er tekin af vef Veðurstofu Íslands.

forsíðumynd
Horft yfir Heiðmörk í átt að Esjunni. Mynd: Auður Kjartansdóttir.

Hrýfi er „[m]ælikvarði á áhrif núnings milli lofts og jarðaryfirborðs“, eins og Trausti Jónsson veðurfræðingur orðar það í umfjöllun sinni á vef Veðurstofu Íslands. Þar skýrir hann hvernig mismikil óregla yfirborðs hefur áhrif á vind, enda dregur núningur úr vindhraða. „Fjarlægðin frá yfirborði (…), upp að þeirri hæð sem vindhraði byrjar að vaxa, er kölluð hrýfi (…). Nafnið dregið af lýsingarorðinu hrjúfur“.

Hrýfi er meira yfir landi en sjó; og meira yfir þéttbýli en sléttum túnum og mýrum. Skóglendi getur svo aukið hrýfi verulega. Taflan hér að neðan er fengin af vef Veðurstofunnar og sýnir t.d. að hrýfi skóglendis er tíu til þrjátíu sinnum meira en hrýfi yfirborðs þar sem einkum er lágvaxinn gróður eða graslendi.

Tafla af vef Veðurstofu Íslands.

Veðurfræðingar taka tillits til hrýfis við gerð spálíkana. Talsverðu skiptir hvort yfirborð lands er gróðursnautt, grasi gróið eða skóglendi. Og þá hve há trén eru.

Bolli Pálmason, sem vinnur að gerð spálíkana hjá Veðurstofu Íslands, segist oft hafa séð áhrif bæði trjágróðurs og húsa á höfuðborgarsvæðinu.

„Maður hefur oft séð þetta yfir höfuðborgarsvæðinu, þar sem eru hús líka sem hafa áhrif á hrýfi. Þá sér maður að vindur bremsast niður yfir höfuðborgarsvæðinu.“

Ný líkön verða tekin í notkun með haustinu, með  nýjustu upplýsingum úr gagnagrunnum um gróðurfar og hrýfi.

Þar til nýlega var lítið um trjágróður í og umhverfis höfuðborgarsvæðið. Fyrir aðeins um hálfri öld var til dæmis mikið um illa farið og rofið land í Heiðmörk, líkt og svo víða. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur man margt eftir því hvernig mold rauk úr Hólmsheiðinni og Elliðavatnsheiðinni í átt að byggðinni, þegar vind hreyfði.

Séð yfir Heiðmörk og Rauðhóla árið 1966.

Búrfoss í Elliðaám um 1900. Umhverfi Reykjavíkur var víða grýtt og gróðurlítið fram yfir miðja síðustu öld. Ljósmynd: Sigfús Eymundsen. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Reykvíkingar og erlend fyrirmenni sem fögnuðu þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, í Reykjavík árið, 1874 voru heldur ekki óhultir fyrir moldroki. Kristján níundi Danakonungur hafði þá komið til landsins, fyrstur Danakonunga, og haft með stjórnarskrá. Efnt var til hátíðarhalda bæði á Þingvöllum og í Reykjavík, í Öskjuhlíð. En þar var ekki jafn notalegt og kannski hefði mátt vænast.

„Veðrið var þurt en heldr hvast og var vindrinn heldr tilfinnanlegr á inu háa holti þar sem fundrinn stóð. Þar við bættist, að mikið moldryk hófst frá inu hreinsaða svæði og eigi stóð á löngu áðr en allir höfðu á fötum sínu sýnilegan vott um að holtið, er eins og kunngt er heitir Öskjuhlið, mætti með fult eins miklum rétti bera nafnið „Öskuhlíð“.“

(Víkverji, þriðjudaginn 4. ágúst 1874, s. 2.)

Það er öllu notalegra í Öskjuhlíð núorðið. Grænn gróður, skóglendi og skjól. Nánasta umhverfi höfuðborgarinnar er líka að mestu gróið upp, þótt jarðvegsrof og uppblástur séu enn í dag mikið vandamál, allt of víða á Íslandi. Skóglendið, til dæmis í Heiðmörk og á Hólmsheiði, er þegar farið að gera mikið gagn. Með því að auka hrýfi, bæta lífsskilyrði manna og dýra, binda kolefni, bjóða upp á tækifæri útivistar og svo mætti lengi telja.

Við í Skógræktarfélagið Reykjavíkur hvetjum fólk til að hrífast með og taka þátt í skógræktarstarfi um land allt. Aukum hrýfið!

Vinnuskólaunglingar við gróðursetningu austan í Sauðási, Heiðmörk, sumarið 1957. Mynd: Gunnar Rúnar Ólafsson.

Börn úr Selásskóla og Norðlingaskóla gróðursettu hátt í 1.000 birkiplöntur í Loftslagsskógum Reykjavíkur í sumar. Loftslagsskógunum í Úlfarsfelli er meðal annars ætlað að draga úr roki.