Á döfinni, Fréttir

Heiðmörk 75 ára í ár

Í ár fögnum við 75 ára afmæli Heiðmerkur.

Tímamótunum verður fagnað með margvíslegum hætti. Áhersla verður á fræðslu, svo sem kynningu á útivistarsvæðinu, gróðri og lífríki skógarins. Þá verður fjallað um uppgræðslustarfið í Heiðmörk áranna rás.

Heiðmörk varð til sem friðland Reykvíkinga sem skógræktarfólk hafði unnið allt frá aldamótunum 1900. Vorið 150 gerðu Skógræktarfélag Reykjavíkur og bæjarstjórn Reykjavíkur með sér samning um „friðun og ræktun Heiðmerkur“. Þar var félaginu falin öll umsjón og framkvæmdir í Heiðmörk og kveðið á um að Heiðmörk skuli „opin öllum almenningi og öllum frjálst að dvelja þar, gegn því að þeir hlíti þeim reglum, sem settar verða um umgengni og umferð.“

Þann 25. júní 1950 var Heiðmörk svo vígð við hátíðlega athöfn á Vígsluflöt. Að sögn Morgunblaðsins voru 2.500 til 3.000 manns viðstödd.

Um sögu Heiðmerkur má fræðast hér.

Á árinu verða líka 25 ár frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Markvisst hefur verið unnið að því að gera stærra svæði í Esjuhlíðum aðgengilegt fyrir útivistarfólk og mæta þörfum ólíkra hópa.