Þann 24. september næstkomandi verður Heiðmerkuhlaupið haldið í þriðja sinn. Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem stendur fyrir hlaupinu í samvinnu við Náttúruhlaup og Fjallakofann. Með hlaupinu vill Skógræktarfélagið bjóða fastagestum og nýjum áhugahlaupurum að kynnast stígakerfinu í Heiðmörk og njóta þess að hlaupa í faðmi skógarins. Boðið er upp á tvær vegalengdir 12 km hlaup um hinn rómaða Ríkishring og 4,7 km skemmtiskokk um Gula hringinn. Eftir hlaupið er boðið upp á kakó og kaffi yfir varðeldi. Skráning og nánari upplýsingar um tilhögun má finna á hlaup.is – sjá hér.
- Kl. 11:00: 12 km – Ríkishringur. Ræst frá Símamannalaut / Borgarstjóraplani. Eftir hlaup verður boðið upp á kakó og kaffi yfir varðeldi.
- Kl. 13:00: 4,7 km – Guli hringurinn – skemmtiskokk. Ræst frá Símamannalaut / Borgarstjóraplani. Einnig má nýta þessa leið sem gönguleið.
- Kl. 13:30: Verðlaunaafhending fyrir fyrstu sætin og útdráttarverðlaun frá Fjallakofanum.
Heiðmerkurhlaupið var fyrst haldið 2020 í tilefni af því að 70 ára voru liðin frá því Heiðmörk var vígð. Hvetjum alla velunnara svæðisins og þá sem áhuga hafa á að kynnast hlaupum í skóginum til að taka þátt í Heiðmerkurhlaupinu!
Ríkishringurinn – aukin styrkur og betri árangur
Heitið „Ríkishringur“ á 12 kílómetra hlaupaleið í hjarta Heiðmerkur, er frá árunum 2009-2010. Hlaupahringurinn nýtur sífellt meiri vinsælda en margir hafa velt fyrir sér hvaðan þetta sérstaka nafn er komið.
Allt bendir til að það orðið til á árunum 2009-2010 í hlaupahópnum „Afrekshópurinn“ sem Daníel Smári Guðmundsson stofnaði 2009. Þegar við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur spurðum Daníel Smára út í þetta, fengum við þetta fróðlega svar:
“Þegar ég stofnaði Afrekshópinn 2009 fór ég að hafa reglulegar æfingar í Heiðmörkinni og lét félagana hlaupa þann hring sem ég hafði hlaupið reglulega síðan 1993 eða þegar ég fór sjálfur að æfa fyrir maraþonhlaup. Veit ekki hvernig á að útskýra það en það var vælt því hringurinn var erfiður fyrir suma. Þannig að ég setti það upp bæði í gamni og alvöru að ef þú ætlaðir að ná árangri í hlaupum væri skylda að hlaupa þennan hring til að fá styrk og þol í fæturna og að auka andlegan styrk. Væri bara lög, skylda með samlíkingu við lög og reglur samfélagsins og ríkisins. Virkaði svona flott og allir fóru að æfa og hlaupa ríkishringinn. Síðan versnaði nú dæmið þegar ég lét mitt fólk hlaupa hringinn rangsælis sem var miklu erfiðara. Í dag eru allir að hlaupa þennan hring sem fáir þekktu áður sem er frábært og að mínu mati er Ríkishringurinn frábært nafn í alvöru og djóki á frábærum þjálfunarhring.“
Reglulegar æfingar á ríkishringnum eða öðrum svipuðum leiðum, skila auk þess betri árangri að mati Daníels Smára. Hann gerði óvísindilega könnun „á hlaupum í Heiðmörkinni hjá okkur sem vorum landliðsmenn í langhlaupum á árunum 1996-1999 að þeir sem hlupu reglulega einu sinni í viku Ríkishringinn héldu meiri styrk út keppnistímabiið og náðu betri árangri maí – ágúst heldur en hinir sem bara hlupu á malbikinu og tartaninu.“
Daníel Smári bendir á að „Hill Running“ sé ein þeirra æfinga sem hafi verið í hlaupaprógrammi bestu hlaupara heims hér áður fyrr. Æfingarnar eigi meðal annars að auka styrk, minnka líkur á álagsmeyðslum ef mikið er æft á götunni, auka fjölbreytni, bæta hlaupastíl og auka andlegan styrk.
Arnar Pétursson sigraði Heiðmerkurhlaupið 2021.
Það fylgir því gleði og ánægja að hlaupa í skógi.
Frá verðlaunaafhendingu í Heiðmerkurhlaupinu 2021. Íris Anna Skúladóttir var fyrst kvenna Ríkishringinn, önnur var Embla Margrét og þriðja Helga Guðný Elíasdóttir. Arnar Pétursson sigraði í karlaflokki, annars var Árni Már Sturluson og þriðju David James Robertson. Það voru ungir og upprennandi hlauparar sem sigruðu Gula hringin í fyrsta og öðru sæti voru bræðurnir Birgir Máni og Vignir Snær Brynjarssynir og í þriðja sæti var Snorri Örvarsson.