Heiðmerkurhlaupið verður í annað sinn laugardaginn 25. september. Um 130 tóku þátt í fyrsta Heiðmerkurhlaupinu, 3. október í fyrra.
Hlaupið er skipulagt af Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samstarfi við Náttúruhlaup í tilefni af því að 120 ár eru frá því að Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað, 25. ágúst 1901. Um áttatíu hluthafar lögðu fé til félagsins og var því varið til að kaupa og rækta upp land við Rauðavatn, til að þar mætti í framtíðinni verða fallegt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Síðan þá hefur félagið lagt grunninn að skógrækt í Öskjuhlíð, Elliðaárdal, á Hólmsheiði og víðar. Nú er félagið að gróðursetja mikið í Úlfarsfell í samstarfi við Reykjavíkurborg. Stærsta verkefni félagsins er þó að hafa umsjón með skóginum í Heiðmörk og útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum, ásamt viðhaldi stígakerfis og áningarstaða.
Með Heiðmerkurhlaupinu er fastagestum og nýjum áhugahlaupurum boðið að kynnast stígakerfinu og njóta þess að hlaupa í faðmi skógarins. Viðburðurinn er auglýstur með þeim fyrirvara að samfélagslegar aðstæður leyfi að hann verði haldinn.
Hægt er að skrá sig í 4 kílómetra skemmtiskokk eða Ríkishringinn, sem er 12 kílómetrar.
Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í karla – og kvennaflokki, ásamt útdráttarverðlaunum. Verðlaunin eru jólatré frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sem vinningshafar geta nálgast á Jólamarkaðnum í Heiðmörk.
Skráning í hlaupið er á hlaup.is þar sem einnig má finna nánari upplýsingar um hlaupið.