Trjátegund mánaðarins

Heggur (Prunus padus)

Trjátegundir eru misjafnlega áberandi eftir árstímum. Sumar fara í fagra haustliti en eru e.t.v. ekki áberandi á öðrum árstímum. Aðrar blómgast fallega í fremur stuttan tíma en eru ekki áberandi utan blómgunartíma. Ein þeirra tegunda sem fyllir síðari hópinn er heggur, Prunus padus.

Heggur er lauffellandi tré eða runni sem hefur lengi verið í garðrækt á Íslandi. Hann má einnig sjá sem skraut í jöðrum og rjóðrum í skógum, stórum runnabeðum og sumarhúsalöndum um land allt. Elsti heggur landsins mun vera í Hafnarfirði, gróðursettur árið 1913. Tegundin þarf helst frjóan og rakan jarðveg til að ná góðum þroska og getur þá orðið um 10 metra hátt tré, oft margstofna. Heggur er af rósaætt eins og mörg falleg tré og runnar.

 

 

Heggur í blóma. Mynd: Pöllö, Wikimedia Commons.

Ber á hegg eru vinsæl meðal fugla. Mynd: Sigurður Arnarson.

 

Fjölgun

Blóm heggsins eru með fimm krónublöð eins og algengast er í rósaættinni. Þau eru hvít og raðast mörg saman í einskonar skúfa. Heggur þroskar aldin flest ár en þau eru svört ber. Hann getur sáð sér út sjálfur með aðstoð fugla sem éta berin og losa sig við fræinn með driti sínu. Dritið nýtist ungplöntunum sem áburður eins og hjá svo mörgum öðrum tegundum af rósaætt. Stundum er hegg fjölgað með fræjum en algengara er að fjölga honum með græðlingum. Á það bæði við um sumar- og vetrargræðlinga. Í gróðrarstöðum er hegg langoftast fjölgað með sumargræðlingum. Honum má einnig fjölga með rótargræðlingum og rótarskotum sem hann á til að setja. Sú aðferð getur vel hentað áhugafólki. Almenningur getur einnig reynt að fjölga hegg með hefðbundnum vetrargræðlingum. Ræting þeirra er ekkert mjög mikil en fyrirhöfnin er lítil og ávallt gaman að rækta sín eigin tré.

Þegar trjám er fjölgað kynlaust á þennan hátt verða afkomendurnir allir með sama erfðaefnið og má gefa þeim yrkjum sérstakt nafn. Þó eru ekki mörg nafngreind yrki heggs í ræktun á Íslandi. Þekktasta yrki venjulegs heggs er án efa ´Laila´. Það er harðgert og byrjar að blómstra óvenju snemma á ævinni. Það er meginástæða þess hversu vinsælt yrkið er. Annað frægt yrki er hinn svokallaði Rauðavatnsheggur, sem var útnefndur tré ársins í fyrra. Hefur honum mikið verið fjölgað í höfuðborginni í gegnum tíðina.

 

 

Tré ársins 2021 – heggur sem gróðursettur var á fyrstu árum Rauðavatnsstöðvarinnar.

 

Blóðheggur

Enn er ónefnt rauðleitt afbrigði með bleikum blómum sem er algengt í ræktun. Kallast það blóðheggur, Prunus padus var. Purpurea.

 

Eftirfarandi saga um upphaf blóðheggsins er komin frá Hafsteini Hafliðasyni, sem öllum ræktendum er kunnur. Blóðheggurinn uppgötvaðist á sólríkum sunnudagsmorgni árið 1911 í dálítilli steinahrúgu af garðyrkjudrengnum Samúel Bodin. Hann var þá í læri í gróðrarstöðinni Fagerhult í Packebo í Smálöndum Svíþjóðar. Strákurinn sá strax að þarna var dálítið merkilegur heggur, dökkrauð blöð og fagurbleik blóm. Svo hann útbjó sig með þær græjur sem þurfti til að taka plöntuna og koma henni í aðhlynningu í gróðrarstöðinni. Eigendur Fagerhult gróðrarstöðvarinnar fjölguðu trénu nokkuð. Þó ekki í meira mæli en svo að nokkur tré dreifðust um nágrennið og gengu ýmist undir heitinu „rauðheggur“ eða „fagerhultsheggur“. Nokkur eintök höfðu líka borist til garða í nágrannalöndum, en var ekki fjölgað þar. Það var ekki fyrr en 1960 að tré var skráð opinberlega í fræðibækur og þá undir heitinu Prunus padus forma colorata – en gengur nú bara undir heitinu Prunus padus ‚Colorata‘. Á árunum milli 1960-1972 var nokkrum hópi einstaklinga komið til og þeir sendir vítt og breitt um Svíþjóð þvera og endilanga til að kanna viðbrögð yrkisins við veðurfari og hnattstöðu. Reyndist það framúrskarandi vel á öllum svæðum. Því var farið að fjölga heggnum í stórum stíl upp úr 1973 og hann síðan seldur undir heitinu „Blodhägg“ um alla Svíþjóð. Fyrsta blóðheggseintakið sem barst til Íslands kom með Hafsteini Hafliðasyni árið 1978. Hann kom því í hendur Sigurðar Alberts Jónssonar sem var forstöðumaður Grasagarðsins í Laugardal. Þar var það gróðursett og þreifst vel og er líklega enn við lýði í trjásafninu þar.

Ekki er vitað til að þessi stökkbreyting, sem gefur rauða litinn, hafi komið fram víðar. Að líkindum er stökkbreytingin ríkjandi því stundum sáir blóðheggurinn sér og eru þá um helmings líkur á að hann verði rauður. Nú eru til nokkur yrki af blóðhegg. Eru þau afkomendur þessarar fyrstu plöntu.

 

 

Heggir gerta verið sérlega fallegir í skógarjaðri. Mynd: Sigurður Arnarson.

Er heggur lítið tré eða stór runni? Mynd: Sigurður Arnarson.

 

Óværur

Á hegg sækir svokölluð hegglús. Hún sækir reyndar á öll tré ættkvíslarinnar en er sjaldan til baga. Einnig má oft sjá lirfur haustfeta á hegg. Stundum grípa menn til varnaraðgerða og úða hegginn með eitri þegar óværu verður vart. Í flestum tilfellum er það alveg óþarfi. Skaði af völdum skordýra á hegg er sjaldan mikill en skaði af eitrinu getur verið mjög mikill. Heggur er reyndar sérlega viðkvæmur fyrir allskonar úðunarefnum.

Annar kvilli sækir stundum á aldin heggs. Mun það vera sveppur sem aflagar aldinin svo þau verða öll krumpuð og ljót. Sveppurinn skemmir ekki sjálft tréð og þar sem hegg er oftast fjölgað með græðlingum er lítill skaði af þessu.

 

Skyldar tegundir

Til ættkvíslarinnar Prunus teljast um fjögur hundruð tegundir. Sumar þeirra eru ræktaðar vegna bragðgóðra aldina eins og plómur og kirsuber. Nokkrar eru ræktaðar sem skrautplöntur og hafa margar reynst ágætlega á Íslandi. Má nefna næfurhegg og virginíuhegg sem dæmi. Þeir sem vilja fræðast um virginíuhegginn er bent á þennan pistil sem skrifaður er af félögum okkar í Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Það félag heldur úti vikulegum pistlum um tré og er þessi pistill byggður á þeim skrifum.

Sigurður Arnarson