Fréttir

Gróðursetningum í haust lokið

Nú í haust voru gróðursettar 20.000 trjáplöntur á 14 hektara svæði í Heiðmörk. Fjölmörg fyrirtæki lögðu Skógræktarfélagi Reykjavíkur lið við þetta stóra verkefni með því að gefa vinnu starfsmanna sinna. Þau fyrirtæki sem tóku þátt voru Össur, Þjóðleikhúsið, Veðurstofa Íslands, Íslenska gámafélagið, Bílaleiga Akureyrar, Ripple, Farfuglar og Fulbright og kann félagið þeim sínar allra bestu þakkir fyrir.

Móttaka hópanna fór þannig fram að mætt var í Smiðjuna í Heiðmörk þar sem viðarvinnsla félagsins er staðsett og haldið þaðan samferða starfsmönnum félagsins djúpt inn í Heiðmörk. Þáttakendur þurftu jafnan að ganga nokkurn spöl frá bílastæði að gróðursetningarsvæði, sem flest voru í grennd við Löngubrekkur en plöntur og verkfæri voru flutt með sexhjóli. Veðrið var gott þessa daga og fólk lýsti mikilli ánægju með þá tilbreytinguna sem felst í líkamlegri útivinnu. Ánægjulegt var hversu áhugsamir gestirnir voru um Heiðmörk og skógrækt og hversu móttækilegir þeir voru fyrir ýmsum fróðleik frá Gústafi Jarli Viðarsyni skógfræðingi og starfsmanni félagsins sem hafði umsjón með gróðursetningunum.

Í haustgróðursetningunum í Heiðmörk voru 8.800 birkiplöntur gróðursettar í mólendi í grennd við náttúrulegt birkikjarr og 8.000 alaskaaspir í lúpínubreiður og 3.500 sitka- og blágreni á valin svæði í brekkurótum. Fjöldinn á milli tegunda skiptist því í heild þannig að 43% er birki, 39% alaskaösp, 15% sitkagreni og 3% blágreni. Á því svæði sem gróðursett var í að þessu sinni er enn talsvert mikið um jarðvegsrof þrátt fyrir 70 ára beitarfriðun en unnið er jafnt og þétt að landbótum á svæðinu.

Mörg fyrirtæki hafa það í stefnu sinni að gefa vinnu starfsmanna sinna til samfélagsverkefna. Skógræktarfélag Reykjavíkur nýtur góðs af þessu fyrirkomulagi en vinnuframlag af þessu tagi er ómetanlegt fyrir félagið.

Hugbúnaðarverkfræðingum frá Ripple líkaði vel sú góða tilbreyting sem felst í útivinnu við gróðursetningu. Hópurinn vann í Heiðmörk þann 13. september.

Starfsmenn Farfugla hafa gróðursett í Heiðmörk í nokkur. Þessi vaski hópur starfsmanna gróðursetti birki þann 18. október.

Starfsmenn Þjóðleikhúsins fjölmenntu til haustgróðursetninga í Heiðmörk þann 19. október. Hópurinn gróðursetti rúmlega 4.000 aspir í lúpínubreiður.

Gústaf Jarl skógfræðingur og starfsmaður félagsins sýnir starfsmönnum Þjóðleikshúsins réttu handtökin við gróðursetningar með geispu.

Starfsmönnum Þjóðleikshúsins þótti það frískandi verkefni að taka þátt í gróðursetningum. Það er þakkarvert framtak leikhússins að láta þannig gott af sér leiða.

Réttu græjurnar skipta auðvitað máli. Með þessu gróðursetningarbelti með axlarólum má auðveldlega bera með sér tvo bakka af plöntum.

Starfsmenn Össurar komu í þremur hópum í síðari hluta október mánaðar. Veðurblíða var þessa daga og létu starfsmenn fyrirtækisins vel af verkefninu.

Gróðursetning á alaskaösp í lúpínubreiður var á meðal þeirra verkefna sem starfsmenn frá Össuri tóku að sér. Það verður gaman að fylgjast með þeim svæðum verða að skógi.

Starfsmenn Veðurstofu Íslands tóku þátt í gróðursetningum í Heiðmörk þann 6. október.