Afar fallegt vetrarveður hefur verið í Heiðmörk í dag, líkt og oft á aðventunni. Í morgun var lagt nýtt spor fyrir gönguskíði og því tilvalið að njóta útiveru í friðlandi Reykvíkinga, hvort sem er á skíðum, á göngu, eða bara með því að dvelja í náttúrunni.
Leiðin að Elliðavatnsbænum er greiðfær. Þar eru bílastæði og hægt að leggja upp þaðan á göngustígum. Einnig er hægt að leggja á bílastæðinu við Helluvatn. Þaðan er til dæmis hægt að ganga eftir merktum göngustíg umhverfis Heimaás eða fara gönguleiðina Vatnahring, sem er sjö og hálfur kílómetri. Lengra inn í Heiðmörk, frá og með afleggjaranum að Elliðavatnsbænum, hefur Heiðmerkurvegi hins vegar verið lokað. Ákvörðun um þetta var tekin út frá vatnsverndarsjónarmiðum, vegna slæmrar færðar og mikillar hálku.
Gönguleiðir og stígar eru merkt inn á kort af Heiðmörk sem nálgast má hér.
Skógarbað (shinrin-yoku) á laugardaginn
Á laugardaginn kemur mun Skógræktarfélag Reykjavíkur og Nature and Forest Therapy Iceland bjóða upp á skógarbað í annað skipti. Góður rómur var gerður að fyrsta skógarbaðinu sem var 25. nóvember. Stefnt er að því að bjóða upp á skógarbað síðasta laugardaginn í hverjum mánuði í vetur. Það næsta verður 30. desember, kl. 11-13.
Skógarbað varð til í Japan 1982 sem leið til að draga úr streitu, tíðum lífsstílssjúkdómum og versnandi lýðheilsu. Skógarbaðið í Heiðmörk felst í tveggja klukkustunda leiddri göngu um Heiðmerkurskóg og jaðar Elliðavatns, þar sem gengin er stutt vegalengd (að hámarki 1 km). Á leiðinni er þátttakendum boðið í upplifun sem getur auðveldað þeim að slaka á, beita skynfærunum og eflt tengsl sín við náttúru og sig sjálf.
Öll sem náð hafa 15 ára aldri eru velkomin. Viðburðurinn er ókeypis. Þess er farið á leit að þátttakendur svari stuttum spurningalista fyrir og eftir gönguna. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að því að senda póst á [email protected] og fá skráningu staðfesta. Vegna eðli viðburðarins er þátttaka takmörkuð við 10 manns.
Meira má lesa skógarböðin hér.
Við hvetjum fólk sem getur til að njóta útivistar í skóglendinu yfir hátíðirnar. Enda fátt notalegra en að vera úti í fallegu umhverfi, þar sem er skjól og fjölbreytt náttúra.