Á döfinni, Fréttir

Góðir gestir í viðarvinnslunni

Fjöldi góðra gesta hefur komið í viðarvinnslu Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk undanfarnar vikur. Meðal annars nokkrir hópar nemenda sem vonandi eiga eftir að vinna mikið úr íslensku timbri á komandi árum og áratugum. 

Nemendur í húsa- og húsgagnasmíði við Tækniskólann koma reglulega í vettvangskennslu í Heiðmörk. Þar er sagt frá skógrækt og sjálfbærri nýtingu skógarafurða. Einnig er fjallað um umhverfis- og loftslagsmál, hvernig unnið er úr timbrinu og eiginleika mismunandi timburtegunda. Yfirleitt fá nemendurnir tækifæri til að fylgjast með þegar tré er fellt úti í skógi og hvernig bolum er flett í borðvið í stórviðarsög. Vettvangsnámið er hluti af því að þróa viðarvinnslu og timburiðnað á Íslandi. Greinin á eftir að vaxa mjög á næstu áratugum í takt við aukið viðarmagn í íslenskum skógum. 

Nú í mars fengu nemendurnir það verkefni að smíða koll. Fætur kollsins eru úr innfluttri furu en setan er úr innlendri ösp úr viðarvinnslunni í Heiðmörk. 

Nemendur í myndlist við Listaháskólann komu líka í heimsókn á dögunum, til að kynnast efniviði úr skóginum. 

Skógræktarfélag Reykjavíkur tekur á móti fjölmörgum hópum  frá LHÍ og öðrum menntastofnunum á hverju ári. Við fögnum áhuga á skógrækt og viðarafurðum!

Nemendur Tækniskólans fylgast með Marcin saga bol í borðvið.
Sævar fellir tré í skóginum.
Borðviður úr ösp.
Kollur með setu úr fallegri ösp.
Nemendur Tækniskólans við Smiðjuna í Heiðmörk.
Nemendur á myndlistarbraut LHÍ í Heiðmörk.