Esjufréttir

Góð þátttaka í Heiðmerkurhlaupi og fjallahjólakeppni í Esjuhlíðum

Um 130 tóku þátt í fyrsta Heiðmerkurhlaupinu á laugardaginn 3. október, í fögru og mildu haustveðri. Hlaupið var skipulagt af Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samstarfi við Náttúruhlaup í tilefni af 70 ára afmæli Heiðmerkur.

90 hlupu Ríkishringinn, sem er 12 kílómetra löng og afar vinsæl hlaupaleið í Heiðmörk. Sigurvegarar voru þau Vignir Már Lýðsson og Anastasía Alexandersdóttir. 42 tóku þátt í 4 kílómetra skemmtiskokki. Birgir Máni Brynjarsson og Signý Harðardóttir komu fyrst í mark. Nánar er fjallað um hlaupið á hlaup.is. Þá er fjöldi mynda úr hlaupinu og af svæðinu á Facebook-síðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Til stendur að gera Heiðmerkurhlaupið að árvissum viðburði.

 

Skemmtiskokk ræst. Mynd: Guðmundur Jónsson.
Mynd: Guðmundur Jónsson.

Hlaupið hófst og endaði á Rarik-flötinni. Boðið var upp á ketilkaffi og kakó yfir varðeldi og naut fólk fagurs haustveðurs í faðmi skógarins. Verðlaunapeningar voru renndir úr við úr Heiðmörk. Þá var á flötinni fjöldi trjáskúlptúra, meðal annars eftir Johan Grönlund. Hann hefur haldið námskeið hjá Skógræktarfélaginu og eru verkin afrakstur þess.

Keppt á nýjum hjólabrautum í Esjuhlíðum

Sama dag, í Esjuhlíðum, tóku ríflega hundrað manns þátt í fjallahjólakeppni Tinds, sem haldin var í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Þetta var í fyrsta sinn sem keppt er á hjólabrautum sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur verið að byggja upp í samstarfi hjólafélögin. Töluvert hefur verið gert undanfarin ár í aðgreiningu hjólreiðarmanna og gangandi vegfarenda.

Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.
Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.
Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Keppt var með svokölluðu Enduro fyrirkomulagi. Það felur í sér að hjóluð er löng leið í fjalllendi með tímatökum á völdum sérleiðum sem eru mest niður í móti.

Keppendur gengu með hjól sín upp að Steini, þaðan sem hjólað var niður eystri leiðina, að Mógilsá. Göngustígurinn að Steini er ekki fyrir hjólreiðamenn en þverstíg að Rauðhól var lokað tímabundið fyrir gangandi umferð þennan eina dag til að ekki skapaðist hætta.

Fjallað var um keppnina í íþróttafréttum RÚV.